17.12.1948
Efri deild: 40. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 77 í B-deild Alþingistíðinda. (219)

66. mál, bifreiðaskattur o.fl.

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég hef áður gert grein fyrir þessari brtt. Ég benti á, að gjald af benzíni, sem nú er 29 aurar á lítra, væri miklu lægra, en í öllum okkar nágrannalöndum og svo lágt, að það borgaði sig betur að senda vörur með bílum vestur á Króksfjarðarnes t.d. heldur en flytja þær með skipum, og afleiðingin yrði sú, að ríkisskip sigldu tóm; mætti því slá tvær flugur í einu höggi með hækkun á skattinum: fá meiri tolltekjur og láta skipaútgerðina borga sig betur eða vera með minni halla. — Héðan er vegalengdin að Króksfjarðarnesi 276 km. og hér um bil sama vegalengd austur að Kirkjubæjarklaustri, en það munar um 200 kr. á tonn, hvað það er ódýrara að flytja vöruna á bílum til Króksfjarðarness, en á skipum. Það er sjálfsagður hlutur að hækka þennan skatt, og ég hef þó ekki lagt til að hækka hann nema um 5 aura. Ég hef bent ráðh. á, að þetta væri einn af þeim skattstofnum, sem ætti að hækka til þess að afla ríkissjóði tekna, en hann tekið því heldur fálega, og ég lagði því ekki til, að hækkun yrði meiri en 5 aurar, og verður þó eftir sem áður ódýrara að flytja vörur með bílum á vegalengdinni innan við 150 km., en áhöld um það á vegalengdum, sem fara yfir 200 km. — Hækkunin vil ég að renni í sérstakan brúasjóð. Mér hefur skilizt á ýmsum, að þeir teldu það vafasama ráðstöfun, en ég vil benda á, að við þurfum að byggja brú á Þjórsá, en við tökum hana í áföngum og hljótum að gera það, því að næg fjárveiting fæst ekki á einu ári. Við þurfum að byggja brú á Hvítá hjá Iðu, Jökulsá í Lóni og Jökulsá í Fljótsdal, Blöndu og fleiri ár, sem kostar það mikið að brúa, að fjárveiting fæst ekki til þess í einu lagi. Þetta vita menn og ausa nú í brúarsjóði eins og fyrir Blöndubrú, í hann hefur verið lagt í tvö ár, og eins hefur verið myndaður brúarsjóður fyrir Jökulsá í Fljótsdal. Þá þurfum við enn að byggja brýr yfir Lagarfljót hjá Steinboga, yfir Skjálfandafljót hjá Stóru Völlum. — Og þetta eru allt brýr upp á 2 til 4–5 milljónir. Eina leiðin til að koma þessu í framkvæmd er að taka það ekki upp í fjárlög, heldur safna í brúasjóð og taka úr honum til bygginga stórbrúa eftir því, sem Alþingi síðar ákveður. — Hvítárbrú hjá Bjarnastöðum kostar ekki nema um 50 þús. kr., ef hún er byggð á Barnafossum, — svo að þetta eru þær stórbrýr, sem við eigum fyrir höndum að reisa næstu árin.

Nú hefur fjmrh. mælzt til þess, að ég taki brtt. mína aftur til 3. umr., og mér skilst, að hann hafi gefið um það hálfgildings loforð, að það verði athugað milli umræðna, hvort ekki sé rétt að hverfa að þessu ráði. Nefndin virðist hins vegar ekki hafa sýnt neinn vilja til að athuga þetta, og eru þó margar nýjar till. mörgum sinnum ranglátari en hækkun á benzínskattinum á döfinni, en ég veit ekki til, að hún hafi einu sinni kallað saman fund um þetta. En ég skil ráðh. svo sem hann vilji að þetta sé athugað milli umræðna, og í trausti þess skal ég taka till. mína aftur til 3. umr.