03.03.1949
Efri deild: 69. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1542 í B-deild Alþingistíðinda. (2204)

126. mál, lax- og silungsveiði

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég er því sammála, að engu breyti, þó að málið gangi til 3. umr. En af því tilefni frá hv. frsm., hvort engar aðferðir finnist til að tolla þennan atvinnuveg, vil ég taka fram, að hægt er að breyta því á tvo vegu: annaðhvort með því að afla tekna eða draga úr kostnaðinum skv. l. Það er upplýst frá veiðimálastjóra sjálfum, að hann hafi orðið að ráða sér sérfræðing, því að sjálfur sé hann ekki sérfræðingur í þeim efnum. Gæti verið athugandi, hvort ekki eigi að leggja þessa stofnun undir fiskideild Atvinnudeildar háskólans, og mætti þá fækka því fólki, er nú er bundið í henni. Við þessa stofnun einnig er hvorki meira né minna en 1000 kr. húsnæðiskostnaður á mánuði. Gæti atvinnudeildin tekið þetta að sér fyrir svo sem 40 þús. kr. viðbót á ári. Hér kemur því fleira til greina, en að skattleggja sjálfan reksturinn. Ef hv. frsm. vill athuga það, þá eru yfir 300 þús. kr. lagðar í skatt á eigendur skipanna vegna eftirlits þeirra og 600 þús. kr. á eigendur bíla vegna rekstrar þeirra. Mikill skattur er lagður á framleiðslu matvæla, og þannig er það víðar og víðar. Verður því vinsamlegast að athuga, hvort eigi megi koma þessu þannig fyrir, að þessir aðilar taki þátt í kostnaðinum, og þá á þann hátt, að bætt sé um þessa atvinnugrein, þannig að hvorir tveggja hafi hag af.