11.03.1949
Efri deild: 74. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1546 í B-deild Alþingistíðinda. (2211)

126. mál, lax- og silungsveiði

Eiríkur Einarsson:

Ég hef nú lítið blandað mér inn í umr. fram að þessu. Hv. frsm. er búinn að taka flest það fram, er máli skiptir. En það er aðeins eitt, sem ég vil vekja athygli á viðvíkjandi c-lið á brtt. hv. þm. Barð., að ef þetta verður að lögum, þá er þetta ákvæði sett með það fyrir augum að standast kostnað við stjórn veiðimála, og skuli leggja þetta gjald á veiðieigendur. Um þetta er það að segja, að þar, sem veiðisamþykktir hafa verið gerðar, þá er allt þetta fé látið renna til þess að viðhalda ræktunarskilyrðunum í viðkomandi veiðiám og vötnum. Ég vildi aðeins benda á þetta atriði, svo að menn gætu tekið það til athugunar í þessu sambandi. Svo er annað. Austur við Ölfusá og Hvítá, þar nýtur ábúandinn einskis fyrir leiguna á ánni, því að ágóðinn af leigunni rennur allur til ræktunar á sjálfum veiðistaðnum, en ég er hræddur um, að bændum reynist það nokkuð erfitt, ef þeir eru sviptir öllum tekjum til þess, hvað þá líka, ef þeir ættu þar á ofan að fara að bera aukaskatt. Það er ekki nein sanngirni í því. Ég vildi aðeins vekja máls á þessu, en ætla ekki að öðru leyti að lengja umr.