14.03.1949
Efri deild: 77. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1547 í B-deild Alþingistíðinda. (2215)

126. mál, lax- og silungsveiði

Gísli Jónsson:

Við umr. síðast skýrði ég frá því, að veiðimálastjóri hefði tekið sérfræðing sér til aðstoðar. Út af þessu óskar veiðimálastjóri, að eftirfarandi bréf sé lesið, og vil ég leyfa mér að lesa það, með leyfi hæstv. forseta. Bréfið hljóðar svo:

„Við umr. um frv. til l. um breyt. á lax- og silungsveiðilögunum (þskj. 325 og 433), sem fram fóru í Efri deild Alþingis s.l. föstudag, létuð þér svo ummælt, að veiðimálastjóri hefði sérfræðing í þjónustu sinni. Þetta er á misskilningi byggt. Veiðimálastjóri er sjálfur sérfræðingur um veiðimál og vatnalíffræði, eins og veiðilögin gera ráð fyrir. Í þjónustu. veiðimálastjóra er maður með skrifstofumannsmenntun, sem er honum til aðstoðar við að vinna þau margvíslegu störf, er veiðimálastjóri hefur með höndum samkvæmt veiðilögunum og ekki þarf faglega þekkingu til að leysa. Störf aðstoðarmanns eru að vélrita og annast önnur skrifstofustörf, safna veiðibókum og færa skýrslur yfir veiðina og aðstoða við rannsóknir á rannsóknarstofu og utan hennar. Aðstoðarstarfið á rannsóknarstofu er m.a. að líma upp lax- og silungshreistur á glerplötur, áður en rannsókn á hreistrinu fer fram, að aðskilja dýr í sýnishornum af dýralífi í ám og vötnum og að vinna að merkingum á laxi. Þessi störf eru öll mjög nostursöm og tímafrek, og getur ófaglærður maður auðveldlega lært að vinna þau, enda eru þess konar störf unnin af ófaglærðu fólki undir eftirliti sérfræðinga í öllum rannsóknarstofnunum, og er tilgangurinn að spara dýrari vinnukraft sérfræðinganna og jafnframt að nýta krafta þeirra sem bezt við störf, sem sérfræðingar einir geta leyst. Þess skal vinsamlega óskað, að þér, herra formaður fjvn., sjáið yður fært að leiðrétta nefnd ummæli yðar í Efri deild, áður en að umræðunni um áðurnefnt frv. er lokið.“

Ég vil þakka hæstv. forseta fyrir, að hann hefur gefið mér tækifæri til þess að leiðrétta þetta, og skal ekki ræða málið frekar.