14.02.1949
Neðri deild: 64. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1554 í B-deild Alþingistíðinda. (2246)

54. mál, sjúkrahús o.fl.

Frsm. (Helgi Jónasson):

Herra forseti. Út af ræðu hv. þm. V-Sk., þá er rétt, að við tókum ekki alveg fullt tillit til brtt. hans, en eins og hann tók fram, gengum við mjög til móts við hana. Út af ræðu hv. þm. N-Ísf., þá er það mikið rétt, að ríkissjóður á í vök að verjast og á erfitt með að uppfylla skyldur sínar, og var n. þetta ljóst, en meðan Alþingi telur, að ríkissjóður hafi efni á að byggja yfir ýmsa embættismenn þeim að kostnaðarlausu, þá þótti n. a.m.k. ekki ósanngjarnt, að læknisbústaðir og sjúkrahús væru styrkt að 2/3, því að n. telur, að þeir aðilar eigi ekki skilið verri aðbúnað, en aðrir. Nú, út af orðum hans að öðru leyti, þá hef ég enga trú á, að ölfrv. hefði tryggt tekjur í þessar framkvæmdir. Sannleikurinn er sá, að á þessu þingi hafa komið ýmsar till. fram, án þess að bent hafi verið á tekjur á móti þeim útgjöldum, sem þær hafa gert ráð fyrir. Þá var hér á ferðinni í d. till. frá hv. þm. N-Ísf. og fleirum um undirbúning að stofnun hressingarhælis við Ísafjarðardjúp. Það, sem þar er farið fram á, kostar stórfé, en ég man ekki til þess, að nein till. kæmi þar á móti, sem gerði ráð fyrir tekjum til þeirra framkvæmda. Það eru þess vegna fleiri en þeir, sem hér eiga hlut að máli, sem bera fram till. á þennan hátt. Það virðist vera mjög sanngjarnt, að ríkið greiði 2/3 hluta til þeirra læknisbústaða, sem hér um ræðir, þar sem aðrir slíkir bústaðir eru greiddir að öllu leyti af ríkinu.

Viðvíkjandi því, sem hv. 2. þm. S-M. var að tala um, þá hefur þetta ekki verið athugað sérstaklega, en það eru ákvæði um þetta í löggjöf frá 1935, sem farið hefur verið eftir. Ég skil með því, að þegar talað er um bæjarfélög, þá sé átt við stærri kauptún, sem hafi kaupstaðarréttindi og bæjarstjóra. Ég býst við, að í framkvæmdinni sé þetta þannig, að með bæjarfélagi sé átt við eingöngu stærri kaupstaði, eins og t.d. Reykjavík, Akureyri, Siglufjörð og Seyðisfjörð, enda hafa allir þessir staðir nokkra sérstöðu um sjúkrahúsbyggingar. Þannig er minn skilningur um þetta efni, og ég býst við, að hann sé nokkuð svipaður skilningi þeim, sem meðnefndarmenn mínir hafa um þetta efni.