04.03.1949
Neðri deild: 75. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1558 í B-deild Alþingistíðinda. (2258)

54. mál, sjúkrahús o.fl.

Jón Sigurðsson:

Ég vil aðeins geta þess, að enda þótt ég sé meðflm. þessa frv., þá tel ég, að það nái ekki neinni átt, að það eitt, að stór kauptún breyti um nafn og nefnist kaupstaðir, eigi að ráða um það, að viðkomandi læknishéruð búi við miklu verri kjör, en ella. Það er ekki nema nafnbreyting, og hún ein er látin ráða, hvort viðkomandi hérað kemst undir hærri styrk eða verður að sætta sig við lægri styrk. Þannig er t.d. í Skagafjarðarhéraði. Þar hefur engin breyting orðið önnur en sú, að Sauðárkrókur heitir nú kaupstaður. Íbúafjöldinn er hinn sami og meðan hann var kauptún eða hreppur, og ef hann héti enn hreppur, fengjust miklu betri kjör. Þetta ákvæði er í mesta máta óeðlilegt. Ég sagði við n., að hún ætti að breyta þessu, og ef það verður ekki gert, mun ég fylgja brtt. hv. 2. þm. S-M.