18.12.1948
Efri deild: 41. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 80 í B-deild Alþingistíðinda. (226)

66. mál, bifreiðaskattur o.fl.

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég benti á það áður, að ég teldi, að eðlilegt væri að hækka benzínskattinn. Því var þá af n. og hæstv. ráðh. tekið á þá leið, að þeir töldu, að það væri vafasamt, hvort það mundi þurfa að gera og hvort það væri rétt, og hafa síðan staðið fast á þeirri skoðun hér á Alþ. Ég benti þá líka þann sama dag á það, að rétt væri að hækka skatt á innlendum tollvörutegundum. Það var líka álitið fjarstæða þá. Það var svo gert í hv. Nd. og samþ. nú aftur af hv. Ed.

En ég vil benda hæstv. fjmrh. á það atriði að hann má eiga það alveg víst, að ríkissjóður kemst ekki undan því að láta hálfa til heila milljón kr. í brúna á Þjórsá, sem verið er að byggja og vantar fé til og vafalaust á að reyna að halda áfram að byggja. Og þá skilst mér, að fjárhagur ríkisins sé þannig, að hæstv. ráðh. ætti að taka fegins hendi hækkun á benzínskattinum, til þess að hann þá gæti sparað af öðrum tekjum ríkissjóðs þá aura, sem lagðir eru í Þjórsárbrúna nú í ár, með því að fá þessa fimm aura viðbót á benzínskattinum í brúasjóðinn, svo að hægt yrði að reyna að klára Þjórsárbrúna í ár. Þetta virðist liggja ljóst fyrir. Og ég verð að líta þannig á, að ef hæstv. ráðh. og aðrir hv. þm. verða á móti þessu, þá telji þeir, að nægar tekjur muni verða eftir þeim venjulegu leiðum, sem fyrir liggja á Alþ., til þess að geta veitt fé bæði til brúargerðarinnar á Þjórsá nú í ár og til annarra nauðsynja, sem að kalla, þegar kemur að því að afgreiða fjárlögin. Náttúrlega er gleðilegt, ef þeim mönnum finnst það, því að þá sjá þeir víst leiðir til að spara á fjárlögunum, og þeir sjá kannske fleiri leiðir til þess að koma vel saman fjárlögunum. En ég sé samt sem áður ekki annað, en að brúasjóði eða ríkissjóði veiti ekki af að fá þetta fé m.a. vegna þeirra atriða, sem ég nefndi.