11.03.1949
Neðri deild: 79. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1560 í B-deild Alþingistíðinda. (2265)

54. mál, sjúkrahús o.fl.

Áki Jakobsson:

Herra forseti. Ég flyt hér brtt. við þetta frv. á þskj. 443, og fjallar hún um það, að ákvæðum laga nr. 33 frá 1933, um sjúkrahús, að ákvæðum þeirra laga um ríkisframlag til byggingar sjúkrahúsa verði breytt á þann veg, að sjúkrahús, sem byggð eru á þýðingarmiklum útgerðarstöðum, þar sem mikið safnazt saman af aðkomufólki, sjómönnum og verkafólki, á vertíðum, njóti sama styrks og fjórðungssjúkrahús fá, en það eru 3/5 kostnaðarverðs. Þessi till. mín er sérstaklega borin fram með tilliti til Siglufjarðar. Þar er lítið sjúkrahús, sem tekur 14–17 sjúklinga í rúm, en á vertíðum þurfa oft að vera þar 50 sjúklingar og þar yfir. Sjúkrarúmunum er þá staflað hlið við hlið inni í stofunum og á göngum og hvar sem gólfrými er. Annars er ekki kostur. Ekki er hægt að láta aðkomufólk, sem er veikt, liggja umhirðulaust í óupphituðum skúrum og bröggum, og því siður er hægt að hafa sjúka menn um borð í skipunum. Sjúkrahúsið verður því að taka við öllum, sem veikjast; innlendum sem útlendum, af landi og sjó. Ég býst við, að flestir, sem kynna sér þetta ástand, sjái og viðurkenni, að það er ekki síður ástæða til, að ríkið styrki sjúkrahúsbyggingu á Siglufirði, en fjórðungssjúkrahúsin, og er ég síður en svo að draga úr því, að fjórðungssjúkrahúsin séu nauðsynleg, ef þau eru sett þar, sem samgöngumiðstöðvar eru.

Brtt. mín er byggð á samþykkt, sem bæjarstjórn Siglufjarðar gerði nýlega með öllum greiddan atkvæðum. Ég vona, að Siglufjörður geti orðið aðnjótandi þessa styrks. Þar liggur nú fyrir að reisa nýtt sjúkrahús, og hefst smiði þess sennilega á þessu ári.