11.03.1949
Neðri deild: 79. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1560 í B-deild Alþingistíðinda. (2267)

54. mál, sjúkrahús o.fl.

Frsm. (Helgi Jónasson):

Herra forseti. Ég skal nú ekki tefja þessar umræður lengi, það er þegar búið að ræða þetta mál lengi hér í deildinni. En eins og ég hef tekið fram hér áður, þá treystir n. sér ekki til að ganga lengra en álit hennar ber með sér. Síðan hafa komið fram hér tvær brtt., og getur n. ekki fallizt á að samþykkja þær. Ég játa að vísu, að brtt. þingmanna Skagf. er ekki stórvægileg, en ég tel hana óþarfa.

Um till. hv. þm. Siglf. er það að segja, að við höfum lög um fjórðungssjúkrahús, eitt í hverjum fjórðungi, en ef ætti að fara að koma Siglufirði undir þau lög á þeim forsendum, sem tilgreind eru í brtt. hv. þm., þá gætu Vestmannaeyjar, Patreksfjörður, Flateyri og jafnvel fleiri staðir komið á eftir með kröfur byggðar á sömu forsendum. Auk þess kemur hér til greina, að á fjárlögum er sjúkrahúsinu á Siglufirði ætlaður aukastyrkur vegna hinna mörgu sjómanna, sem þangað leita læknishjálpar.

Ég sé ekki ástæðu til að breyta neinu frá áliti n., eins og sakir standa, og legg til, að ekki verði horfið neitt frá því.