18.12.1948
Efri deild: 41. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 81 í B-deild Alþingistíðinda. (227)

66. mál, bifreiðaskattur o.fl.

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Hv. 1. þm. N–M. má ekki skilja mig þannig, að ég hafi álitið, að nóg fé væri í ríkissjóði til þess að veita í þessa brú að óbreyttu ástandi. Það, sem ég finn að brtt., er ekki það, að benzínskatturinn sé hækkaður um þessa aura, heldur finnst mér það ekki vera góður siður á Alþ., að það sé verið að binda ákveðnar framkvæmdir með breyt. á skattalöggjöf á þennan hátt, sem í brtt. er gert ráð fyrir. Þetta er eiginlega það, sem ég hef á móti brtt. hv. þm., því að hér virðist það vera hugmyndin að leggja þarna tiltekið fé rétt í þetta eina fyrirtæki. Og ef þetta væri samþ. á þennan hátt, hversu margir mundu þá ekki hafa slíka tilhneigingu um tilsvarandi ákvæði í lögum vegna annarra brúargerða? Ég bið hv. þm. að athuga þetta. En hann má ekki skilja álit mitt þann veg, að ríkissjóður hafi nóg fé fyrir hendi og af þeim ástæðum þurfi ekki að hækka benzínskattinn.