05.04.1949
Efri deild: 82. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1562 í B-deild Alþingistíðinda. (2276)

54. mál, sjúkrahús o.fl.

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég hef skrifað undir nál. án fyrirvara og vildi því láta afstöðu mína koma fram. Á síðasta Alþ. var borið fram frv., er samþ. var í Ed. og tekið til 3. umr. í Nd. rétt áður en þingi var slitið. Afgreiðsla þess hlýtur að hafa fallið niður af misgáningi, því að það var enginn ágreiningur um frv. Í frv. var ákveðið, að ríkissjóður skyldi kosta sjúkrahús og læknisbústaði að tveimur þriðju hlutum í læknishéruðum, sem væru svo fámenn, að sýnt væri, að þau gætu ekki staðið undir kostnaðinum. Ég hefði frekar kosið, að þessum málum væri skipað eins og ráð var fyrir gert í þessu frv. Ég vil þó ekki stefna málinu, eins og það nú liggur fyrir, í hættu með því að bera fram brtt. Þó að ég sé óánægður með þessa afgreiðslu þess, mun ég því sætta mig við hana, en ég mun reyna að fá þessu breytt síðar.