07.04.1949
Neðri deild: 87. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1566 í B-deild Alþingistíðinda. (2285)

148. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. (Sigurður Kristjánsson):

Herra forseti. Við nm. höfum gefið út sameiginlegt nál. á þskj. 478, en ég skal í fáum orðum gera grein fyrir þeim skoðunum, sem fram komu í n. En áður en ég geri það, þá vil ég geta að nokkru þess, sem ég minntist á í framsögu minni fyrir málinu.

Frv. þetta er borið fram af þeim sökum, að stjórn nýbyggingarsjóðs hafði í upphafi allvafasaman skilning á ákvæðum þeim, sem felast í 14. gr. þessara l., staflið c, en þar segir, með leyfi hæstv. forseta: „Útgerðarfélag ráðstafar sjálft því fé, er það hefur lagt í nýbyggingarsjóð, en því má aðeins verja til aukningar og endurnýjunar á framleiðslutækjum á sviði útgerðar, annaðhvort með nýbyggingum innanlands eða með kaupum frá öðrum löndum. Þó er heimilt að verja fé nýbyggingarsjóðs til að greiða tap á útgerð, ef aðrar eignir hrökkva eigi til fyrir því.“ Nú er ég ekki viss um, hverjum augum núverandi sjóðsstjórn lítur á þetta, því að ríkisskattanefnd hefur nú með þetta að gera. En áður leit n. svo á, að skv. síðari málsliðnum sem ég las, mætti ekki greiða fé úr sjóðnum til greiðslu á rekstrartapi útgerðarfélags, nema það gæti sannað, að það ætti ekki fyrir skuldum, en slíkt vita menn, að er bannað, maður, sem er gjaldþrota, má ekki greiða einum, en öðrum ekki. Þetta er því rangur skilningur. En ef ætti að ráðstafa eignum manna, þá má búast við, að þær seldust aðeins fyrir helming þess verðs, sem þær í rauninni eru. En það þýðir aldrei að deila við dómarann. Þetta var skilningur sjóðsstjórnarinnar, og ég taldi, að sá skilningur væri í fyrsta lagi ekki réttur og í öðru lagi, að hann yrði þess valdandi, að þarna væri bundið fé, engum að gagni, og skal ég nú leyfa mér að skýra það nánar.

Þegar við nm. fengum þetta frv. til athugunar, sendum við það til umsagnar nýbyggingarsjóðsstj., en hún hafði áður gefið mér sem flm. frv. þær upplýsingar, sem þá voru fyrir hendi. Þessar upplýsingar náðu ekki nema til ársloka 1947, auk þess hafði sjóðsstjórnin þá ekki fengið skýrslur frá ýmsum aðilum utan af landi, en eins og kunnugt er, er sjóðurinn í vörzlu eigendanna sjálfra. Aftur á móti var sjóðsstjórnin búin að fá nýjar skýrslur, þegar n. tók til starfa, og höfðu orðið miklar breyt. á árinu, sem eðlilegt var. En einmitt á árinu 1948 og nú á þessu ári eru ýmsir eigendur sjóðsins að láta smiða skip erlendis, og í ljós kom, að ef eignum sjóðsins, sem áður voru, eru ekki eftir nema það, sem segir hér í nál. á þskj. 478, þ.e.a.s. innan við 1 millj. kr., sem togaraeigendur Íslands eiga óráðstafað. Bátaeigendur eiga enn minna, eða 737 þús. kr. óráðstafað. Það mun ekki vera neinum vafa bundið, að þessu fé verður ekki ráðstafað til nýbygginga. Það er svo lítill hlutur í eign hvers manns, að enginn mundi ráðast í að láta byggja skip vegna inneignar sinnar. Hér er þess vegna, eftir þeim skilningi, sem stjórn sjóðsins hefur á l., innilokað fé, sem engum kemur að gagni. Eins og ég tók fram við framsögu málsins upphaflega, sýndist mér það fara illa saman, að ríkið væri að láta mönnum í té lán og styrki í jafnvel tugmilljóna tali til þess að fullnægja skuldakröfuhöfum, og það oft kröfuhöfum á smáskuldir, opinber gjöld, sem nema nokkrum hundruðum, en loka inni á sama tíma nokkur þús. kr. hjá þessum sömu aðilum, þannig að þeir geta ekki haft af því fé neitt gagn eða arð. Nú hefur það orðið að samkomulagi í n. að mæla með því, að þetta fé verði leyst, eins og frv. gerir ráð fyrir, að því leyti er bátaútvegsmenn snertir. En 3 nm. hafa lagt fram brtt. á þskj. 492, þar sem þeir undanskilja inneignir togaraeigenda. Út af þessu vildi ég segja það, að ákvæðið í 14. gr., í staflið c, tekur til útgerðarmanna og útgerðarfyrirtækja, alveg án tillits til þess, hvort fleytan er stór eða smá, sem þeir gera út. Ef skilningur minn á l. er réttur, og ég hef ekki heyrt því mótmælt af neinum og varla einu sinni af sjóðsstj., þá er vitanlega þessi breyt. á l., sem ég fer fram á í frv., ekki annað en útskýring, sem gerir það mögulegt, að hægt sé að framfylgja ákvæðum l. Ég held, að ekkert af þeim inneignum í sjóðnum, sem nú er óráðstafað, verði nokkurn tíma ráðstafað til nýbygginga, og ég veit vel, að mjög mörg af þeim skipum, smærri og stærri, sem þarna eiga innstæður, eru í skuldabasli og miklum vandræðum með að standa í skilum. Ég legg áherzlu á það, að þetta fé verði losað, en að sjálfsögðu læt ég það ráðast, hvort meiri hl. Alþ. samþ. brtt. hv. meðnm. minna á þskj. 492 eða ekki. Hv. þd. segir til um það, hvorn skilninginn hún álitur réttari í þessu efni.