07.04.1949
Neðri deild: 87. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1568 í B-deild Alþingistíðinda. (2286)

148. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Halldór Ásgrímsson:

Herra forseti. Eins og sést á nál. sjútvn. á þskj. 478, þá hefur n. ekki orðið alls kostar sammála um afgreiðslu þessa máls. Þrír af nm., þ.e. hv. þm. Siglf., hv. þm. Ísaf. og ég, viljum afgreiða málið þannig, að þessi heimild, sem farið er fram á í frv., hún nái aðeins til bátaútvegsmanna. Það má geta þess, að allur rökstuðningur hv. flm. fyrir þessu máli við 1. umr. þess gekk eingöngu út á það að sýna, að það væri eftir atvikum eðlilegt, að breyting fengist hvað snerti bátaútveginn, í sambandi við nýbyggingarsjóð. Það er í raun og veru viðurkennt í n. af flm., að aðalástæðan fyrir framkomu þessa frv. er sú, að fá þessa breytingu fram vegna bátanna, og n. öll gat orðið sammála um það, að eftir ástæðum væri réttlátt að mæla með því, að slík breyting næði fram að ganga. En við þrír í n. teljum hins vegar, að það leiði ekki af því, að það sé sjálfsagt eða jafnréttlátt, að þessi undanþága sé líka veitt til nýbyggingarsjóðstogaranna, meðfram fyrir það, að augljóst mál er, að það getur ekki skipt nokkru máli fyrir rekstur nokkurs togara, hvort hann fær losaða úr nýbyggingarsjóði upphæð, sem er innan við 25 þús. kr. Ég tel það óneitanlega dálítið viðkvæmt mál að leyfa óbeina notkun þess fjár, sem hefur á sínum tíma verið heimilað að leggja til hliðar skattfrjálst í vissu augnamiði, og við þrír nm. teljum, að ekki liggi fyrir sömu ástæður, sem réttlæti það, að þessi undanþága, að þessu sinni a.m.k., nái til togaranna eins og til smábátanna. Þess vegna leggjum við til, að frv. verði breytt í þá átt, að þessi undanþága sé eingöngu bundin við bátaútveginn, og leggjum til, að hv. d. samþ. brtt. okkar á þskj. 492.