07.04.1949
Neðri deild: 87. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1568 í B-deild Alþingistíðinda. (2287)

148. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. (Sigurður Kristjánsson):

Herra forseti. Það er alveg rétt hjá hv. 2. þm. N-M., að í framsöguræðu minni ræddi ég aðallega um bátaútveginn. En ástæðan til þess var sú, að þetta basl, sem bátaútvegurinn á í og átti þá, var mjög ríkt í huga mínum, þegar ég flutti þetta frv., því að það kom í minn hlut að rannsaka nokkuð hag bátaútvegsins og taka þátt í undirbúningi þeirra till., sem síðan voru samþ. hér á Alþ. um stuðning við hann. Það stóð einnig svo á, að ég gat ekki fengið upplýsingar hjá stj. nýbyggingarsjóðs, sem næðu lengra en til ársloka 1947, og þar af leiðandi var það ekki fyrir hendi, að búið væri að ráðstafa af innstæðum togaranna svipað því eins miklu eins og nú er í ljós komið, að ráðstafað hefur verið. Mig minnir, að við árslok 1947 hafi verið óráðstafað um 8 millj. kr., en nú er það innan við 1 millj. kr., sem óráðstafað er. Eins og ég áður tók fram, má gera ráð fyrir því, að þessu fé verði aldrei varið til nýbygginga. Þetta er svo lítið á hvert skip, að út í nýbyggingu verður aldrei lagt vegna þeirra peninga, enda mun þetta yfirleitt tilheyra þeim togurum, sem eru komnir í greiðsluþrot vegna taprekstrar og liggja af þeim sökum áhafnalausir á höfnum inni. Ég hef nú aldrei ætlað að gera þetta að kappsmáli, en vil þó benda hv. þm. á það, að það er ekki rétt orðað hjá hv. 2. þm. N-M., þegar hann talar um, að Alþ. sé nú að veita undanþágu til þess að nota fé þetta til greiðslu á taprekstri. Sú undanþága er til. En ef till. hv. meðnm. er samþ., tekur hæstv. Alþ. nú þessi hlunnindi af togaraeigendum, sem þeir alveg skýlaust hafa áður samkvæmt l. að mínu áliti. Það er þetta, sem ég vildi, að hv. þm. gerðu sér ljóst, áður en þeir greiða atkv. um till. Hins vegar er alls ekki verið að taka fé með þessu frá nýbyggingarsjóði, vegna þess að þetta fé verður aldrei til nýbygginga notað. Í öðru lagi er ekki með þessu frv. breytt þeim tilgangi, sem núgildandi l. um þetta efni hafa. Verði till. hv. meðnm. minna samþ., orsakar hún það, að ákvæði 14. gr., — sem segir undantekningarlaust, að útgerðarmenn megi nota innstæður þessar til greiðslu á taprekstri, — verða ekki í gildi framar að því er snertir togaraútgerðina.

Eins og ég sagði áðan, tel ég þetta ekki vera stórmál. Þeir eigendur togara, sem hafa orðið að stöðva rekstur skipa sinna vegna taps, þeir eiga ekki meira hver fyrir sig í þessum sjóði, en að það hrökkvi þeim skammt. Við vitum, að fjárgreiðslur til togaraútgerðar eru svo stórbrotnar, að það þarf mikið til. Ég er þess vegna ekki að kappræða þetta neitt. Mér finnst þetta liggja svo ljóst fyrir, að það sé næstum móðgun við hv. þm., ef ég færi að setja þá á skólabekk og kenna þeim réttan skilning á þessu efni, sem liggur opið fyrir þeim. Ég legg það alveg undir dóm hv. þm., hvort þeir vilja samþ. þessa brtt. hv. meðnm. minna, en vitanlega er ég henni alveg andvígur.