11.11.1948
Efri deild: 11. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1575 í B-deild Alþingistíðinda. (2309)

60. mál, útflutningur og innflutningur á íslenzkum og erlendum gjaldeyri

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Mér þykir leitt, að hæstv. viðskmrh. er ekki hér í hv. d. til þess að vera viðstaddur þessa umr. málsins.

Ég er í meginatriðum samþ. frv. þessu á þskj. 86. En ég tel eðlilegt, að þetta mál verði afgr. um leið og bráðabirgðal. á þskj. 39 verða afgr., sem er mál nr. 36, um breyt. á þessum sömu l., sem er stjfrv. Ég hef rætt þetta mál nokkuð við skrifstofustjóra Alþ., vegna þess að ég hafði hugsað mér að bera fram frv. nokkuð líkt því, sem hér kemur fram, og skrifstofustjóri áleit heppilegt, að þessi frv. fylgdust að, því að þau eru um breytingu á sömu l.

Þá vildi ég beina þeirri spurningu til hæstv. ráðh., hvort hann telur nokkra stoð í l. frá 22. marz, um innflutning og útflutning á gjaldeyri, fyrir því að banna ferðalög eins og gert hefur verið með auglýsingu, sem gefin er út af gjaldeyrisn. Mér hafa verið gefnar þær upplýsingar af viðskmrh., að þetta sé ekki reglugerðaratriði frá ráðuneytinu, heldur ekki auglýsing frá ráðuneytinu, heldur auglýsing frá viðskiptan., sem ég hygg, að mjög vafasamt sé, að eigi stoð í l., eins og flm. tók fram. — Mér hefur verið bent á, að þetta sé með tilvísun til 4. gr. l., en ég sé ekki, að sú grein heimili á nokkurn hátt þessa aðferð. Ég vil með leyfi hæstv. forseta lesa þessa málsgr. l., sem vísað er hér til:

„Hver sá, sem fer af landi burt, skal gefa tollyfirvöldunum skriflega sundurliðaða skýrslu um það, hve mikinn gjaldeyri hann hafi meðferðis.

Einstaklingar, sem búsettir eru hér á landi, skulu við brottför úr landi gera grein fyrir, að þeir hafi aflað sér gjaldeyris til fararinnar á löglegan hátt, og jafnframt undirrita drengskaparyfirlýsingu um það að semja ekki við erlenda aðila um að fá erlendan gjaldeyri eða uppihald erlendis gegn greiðslu í erlendum gjaldeyri eða gegn nokkurs konar öðru endurgjaldi, nema samþykki íslenzkra gjaldeyrisyfirvalda komi til.

Upptaka eigna skv. 69. gr. almennra hegningarlaga skal heimil vera.“

Hvort tveggja þetta er hægt að gera án þess að taka sér heimild til þess að stöðva fólkið að fara utan. Það má náttúrlega deila um það, hvort manni sé með þessu fyrirmunað að vinna sér inn tekjur erlendis, og sé það skoðun hæstv. ríkisstj., að það sé heldur ekki leyfilegt, þá er að sjálfsögðu gengið lengra, en sæmilegt er, og þá á vitanlega að fella þá gr. niður því að það er vitanlega ekki stætt á því, að íslenzkum þegnum sé ekki fært að fara utan, t.d. á skip eða vinna við verksmiðjur eða stunda önnur störf. Ég tel því eðlilegast að fella þessa grein niður.

Þá vildi ég gjarna, að hæstv. ráðh. vildi upplýsa það, hvort það væri rétt, að hæstiréttur hafi ráðlagt ríkisstj., að þessi auglýsing væri ekki gefin út, um takmörkun leyfa til utanferða, eða hvort hæstv. ríkisstj. hafi leitað ráða til hæstaréttardómara, því að hér er skert svo frelsi manna, að ég trúi ekki fyrr, en ég tek á, að ólögfróður ráðh. hafi gert þetta án þess að fá ráð lögfróðra manna, áður en slíkt spor væri stigið. Það er alveg áreiðanlegt, að á þessari haftaöld hefur aldrei verið gengið eins langt á rétt einstaklinga eins og hér er gert. Ég harma það, að enginn maður skuli hafa haft manndóm í sér til þess að fá dómsúrskurð um þetta atriði, en það kann að vera, að það hefði verið nauðsynlegt. Ég vil þar að auki benda á, að það er náttúrlega alveg óþolandi að beita þessum aðferðum gagnvart þegnum landsins, því að það er ekki hægt að treysta neinum manni til þess að framkvæma slík ákvæði eins og hér er um að ræða, ef það skyldi vera í l. heimild fyrir slíku, því að það er enginn fær um að úrskurða það, hvort leyfa skuli þessum eða þessum manni að fara utan. Og þau dæmi, sem fram voru tekin af hv. flm., sýna, hve ákaflega erfitt er að framkvæma þetta. Það er hreinasta handahóf. Auk þess er hægt að nota þetta, á stórkostlega pólitískan hátt, sem mér dettur þó ekki í hug að drótta að neinum og allra sízt hæstv. ráðh. eða öðrum. En hv. þm. muna kannske átökin, sem urðu í Sþ. milli mín og hæstv. menntmrh., þegar rætt var um yfirfærslu til stúdenta. Þá krafðist hæstv. menntmrh. þess, að hann fengi að ráða yfir, hvaða stúdentar fengju að vera erlendis og hvert þeir færu og jafnvel hvaða pólitíska skoðun þeir hefðu, þegar þeir kæmu heim.a.lþ. braut niður þessa tilraun hæstv. ráðh., og ég vona, að svo verði gert hér, þannig að Alþ. brjóti niður vald n. til þess að ákveða hvort menn, sem þurfa, megi fara utan eða ekki.

Ég vil því lýsa fylgi mínu við þetta frv., og eins og ég hef áður sagt, hygg ég, að afgreiðsla þessa máls ætti að bíða, þar til stjórnarfrv. kemur hér til umr., sem mun fara í sömu n., og sé ég ekki ástæðu til annars, en að sameina það.