11.11.1948
Efri deild: 11. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1580 í B-deild Alþingistíðinda. (2312)

60. mál, útflutningur og innflutningur á íslenzkum og erlendum gjaldeyri

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir svörin, sem hann gaf mér við mínum spurningum, að svo miklu leyti sem þau voru tæmandi. Ég veit, að hann skilur, að hér er um mjög viðkvæmt mál að ræða. Ég veit, að ráðh., sem leggur eins mikinn tíma í að hugsa mál eins og ég veit, að hæstv. ráðh. gerir, er fús til þess að ræða málið reiðilaust og athuga fleiri leiðir.

Hæstv. ráðh. sagðist vera á móti því, að höftin væru numin burt, og gaf ástæður fyrir því. En er ráðh. hér ekki að blanda saman alveg óskyldum málum? Fyrsta ástæðan, sem hann gaf, var sú, að það væri verið að reyna á þennan hátt að fyrirbyggja, að notaður væri gjaldeyrir, sem væri illa fenginn erlendis. Ég er honum sammála um það, að gera þurfi ráðstafanir til þess, að íslenzka ríkið geti klófest þann illa fengna gjaldeyri, ef hægt væri og möguleikar fyrir landið að ná honum án þess að verða sér til vansa, eins og ég álít, að hér sé verið að gera. En ég er honum ekki sammála um það, að á þennan hátt sé auðið að komast yfir þann gjaldeyri, nema síður sé. Og ég er viss um, að ef gefnar yrðu frjálsar nauðsynjavörur, eins og vefnaðarvörur og skófatnaður, og leyft ákveðinn tíma að flytja inn þessar vörur án þess að leyfa um leið erlendan gjaldeyri, þá mundi það bæta mikið úr því ástandi, sem er í þessum málum. Skortur á vefnaðarvöru í þessu landi er svo mikið vandræðamál, að þeir einir eru ekki komnir í þrot, sem hafa komizt í gegnum þetta varnarkerfi viðskiptanefndar og geta komizt út og klætt sig upp. Það hafa hrúgazt upp hjá mér undanfarið dyngjur af bréfum utan af landi, sem eru full af kveinstöfum yfir því, að fólkið hafi ekki nægan skófatnað að ganga í til vinnu, — þar sem kvartað er yfir því, að bræðurnir verði að skiptast á um verkamannaföt til þess að geta gengið út til verka, og þar sem bóndinn verður að liggja í rúminu, til þess að hinir geti farið út. (SÁÓ: Þessu trúi ég ekki.) Ég get stað fest það, ég hef fengið bréf um það. Bóndinn verður að liggja í rúminu, meðan bræðurnir vinna að störfum. Það er alls ekki sæmandi, að þm. og jafnvel ráðh. skuli hlæja að þessum málum. Vill ekki hæstv. forsrh. einnig láta eitt bros falla í skálina? (Forsrh.: Eftir ósk.) Það er þrengt svo að í þessum málum nú, að ég er viss um, að það er ekki sízt þess vegna ásóknin í að fara til útlanda, til þess að geta klætt sig svolítið upp og þurfa ekki að ganga hálfber hér í landinu.

Hæstv. ráðh. upplýsti í svari sínu, að hann hefði ekki fengið úrskurð eða álit hæstaréttar um þetta mál, og hins vegar, að hann hefði ekki farið eftir því, þó að hann hefði fengið það. En hann vanrækti að svara öðru meginatriði, sem sé, hvort hann sem ólöglærður ráðh. hefði leitað álits lögfræðings um þetta atriði, áður en hann lét gefa út auglýsinguna. Vildi hann nú ekki upplýsa hv. d. um það, hvort þetta væri gert samkvæmt ráðum lögfróðra manna um, að stoð væri í l.? Hann fullyrðir, að það væri fullkomlega stoð í þessum l. Ég get fullyrt, að svo er ekki, og mig mundi undra það, ef nokkur dómari gæti dæmt, að gefa mætti út þessa auglýsingu með stoð í 4. gr. l. Það var skilningur minn á þessari lagagr., og ég er ekki einn um þá skoðun. Ég hef marghugsað þessa gr. og rætt hana við viðskmrn., m.a. skrifstofustjórann, og gat hann ekkert fullyrt um það, hvort væri stoð í þessari gr., en taldi bezt að snúa sér til hæstv. ráðh. um þetta atriði, og þess vegna spyr ég: Hefur hann haft leiðbeiningar frá ábyggilegum, lögfróðum mönnum í þessu máli, eða er þetta aðeins gert í því trausti, að þetta hafi stoð í l.?

Hæstv. ráðh. benti á, að það hefðu farið út síðan um 2 þúsund manns í 5 mánuði leyfislaust. Þetta sýnir náttúrlega, hve frámunalegt ákvæðið er. Það sýnir raunverulega, að ákvæðið hefur sama sem ekkert gildi, — að menn, sem eiga að framkvæma það og gefa út, trúa því ekki í raun og veru, að hægt sé að beita þessu valdi, sem er ekki heldur von, því að ég tel gersamlega óhæft að setja í lög að banna mönnum að fara út úr landinu.

Ráðh. sagði, að við gætum víst sýnt fram á, að aðrar þjóðir hefðu meira frelsi í þessum málum, en að leyfa 30. hverjum manni að fara úr sínu landi, og þykir mér vænt um að geta upplýst hann um þetta efni. — Í þeim gjaldeyrisvandræðum, sem nú eru í Englandi, er hverjum einasta þegn í landinu, sem óskar eftir að fara úr landinu, leyft að fara með 35 sterlingspund, þó að hann hafi ekkert erindi. Nákvæmlega sama gildir um Danmörku. Ef hann vill fara til ákveðinna starfa, t.d. viðskiptastarfa, getur hann fengið meiri upphæð. (Samgmrh.: Til hvaða landa má hann fara?) Hann má ekki fara til Belgíu, nema hann fái sérstakt leyfi, og hann má ekki með þessu ákvæði fara til dollaralandanna, en til sterlinglandanna má hann fara, hvert sem hann vill. Þetta er byggt á því, að það stuðli mjög að kynningu á milli landa, að menn séu ekki lokaðir inni. Og það er hart af þeim manni, sem fer með landkynningarmálin, að hann skuli leyfa sér að beita slíku ákvæði til þess að torvelda landkynningu, til þess að rífa niður þau verk, sem hann sjálfur byggir upp.

Hæstv. ráðh. sagði, að það væri neyðarbrauð að setja þessar reglur. Ég held, að hann ætti að sanna okkur, að þessi reglugerð út af fyrir sig skapi eitthvað, flytji eitthvað inn í landið af gjaldeyri. Ef það væri mögulegt fyrir hann að ná í eitthvað af þessum illa fengna gjaldeyri, þá væri það annað mál. En það liggur ekki fyrir. Það þarf að gera aðrar ráðstafanir til þess að ná í þennan gjaldeyri, en þetta hér.

Og svo að síðustu í sambandi við það, hvaða mönnum er falið að úthluta þessu og hvernig þeir rækja það starf sitt, þá vil ég benda ráðh. á, — og er það ekki sagt til ámælis á nokkurn hátt fyrir n., því að hún er hlaðin störfum, — að ég hef hvað eftir annað farið til útlanda í erindum stj., en hefur verið neitað um gjaldeyri hjá n. til þess að reka erindi stj. Þeirri n., sem hefur ekki tækifæri eða vilja til þess að rannsaka þessi mál betur, en hér hefur átt sér stað, er ekki hægt að afhenda slíkt vandamál. Ef ráðh. vill rengja þetta, skal ég leggja gögnin á borðið.

Ég held, að öll þessi rök, sem við höfum flutt, hrópi á móti þeirri staðhæfingu ráðh., að þetta mundi bæta úr málinu, og vænti þess, að hann taki þetta mál til mjög alvarlegrar athugunar, svo að því verði breytt í það horf, sem sæmandi er menningu Íslendinga.