15.11.1948
Efri deild: 15. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1585 í B-deild Alþingistíðinda. (2321)

60. mál, útflutningur og innflutningur á íslenzkum og erlendum gjaldeyri

Flm. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Ég hef nú mjög takmarkaðan ræðutíma eftir, og verður þetta því aðeins stutt athugasemd. En þar sem hæstv. ráðh. var ekki viðstaddur, er umr. fóru hér fram, þá vil ég minna á eitt atriði, sem hefur verið í l. varðandi gjaldeyrismeðferðina, en viðskiptanefndin hefur byggt auglýsingar sínar á því, er hún hefur sett takmarkanir um ferðalög fólks til útlanda. Með leyfi hæstv. forseta les ég þessa lagagr. upp. Hún hljóðar svo: „Einstaklingar, sem búsettir eru hér á landi, skulu við brottför úr landi gera grein fyrir, að þeir hafi aflað sér gjaldeyris til fararinnar á löglegan hátt, og jafnframt undirrita drengskaparyfirlýsingu, um það, að semja ekki við erlenda aðila um að fá erlendan gjaldeyri eða uppihald erlendis gegn greiðslu í íslenzkum gjaldeyri eða gegn nokkurs konar öðru endurgjaldi, nema samþykki íslenzkra gjaldeyrisyfirvalda komi til.“ Hér er beinlínis sagt, að þeir, sem vildu njóta fyrirgreiðslu erlendis, verði beinlínis að afsala sér henni. En ef menn þurfa enga fyrirgreiðslu, en þeim sé boðið, þá skilst mér, að slíkt heyri ekki undir þessa lagagr., heldur aðeins þeir, sem borga vilja greiða með greiða. Þeim er settur stóllinn fyrir dyrnar, en ekki þeim, sem boðnir eru. Þetta vildi ég aðeins benda á til viðbótar, en ræði málið ekki frekar nú.