15.11.1948
Efri deild: 15. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1585 í B-deild Alþingistíðinda. (2322)

60. mál, útflutningur og innflutningur á íslenzkum og erlendum gjaldeyri

Sigurjón Á. Ólafsson:

Herra forseti. Ég kvaddi mér hljóðs fyrir tveim dögum síðan, vegna þess að ég óska eftir að fá nokkrar upplýsingar í málinu. Ég skal ekki fara út í efnishlið málsins, en ég tel nauðsynlegt, að allt komi fram, sem máli skiptir, og ekkert óhreint mál verði eftir í pokahorninu. Ég vil fá það upplýst, hve margt fólk hefur farið utan undanfarið og hversu miklum gjaldeyri það hefur eytt. Mér er ekki grunlaust um, að vissar stéttir í þjóðfélaginu sæki hvað fastast á um það, og það mætti gjarna koma fram, hvaða menn það eru, sem hér er um að ræða, og hvaða mönnum er svo synjað. Ég vil fá þetta skýrt í ljós, hvaðan þau ummæli koma, að hér sé nokkuð farið út í mat á stétt manna og stöðu í þjóðfélaginu. Svo vil ég fá að vita, hve mörgum mönnum hefur verið neitað um ferðaleyfi og hvaða ástæður hafa til þess legið. Ég spyr um þetta sökum þess, að það er mál manna, að mikið sé um utanferðir með ýmsum hætti og í misjöfnum erindum, og ef það reynist rétt, sem hæstv. ráðh. upplýsti hér í gær, að þrítugasti hver maður hefði farið utan á þessu ári, þá finnst mér, að ekki væri óeðlilegt að athuga þetta mál ofan í kjölinn, og ég á bágt með að skilja, hvernig margt af þessu fólki hefur getað aflað sér gjaldeyris til þessara ferða. Hitt skil ég vel, að með bættum efnahag almennt verði fjöldi manna, sem langar til að sjá sig um í heiminum, og um það er ekki nema gott að segja — nota bene ef fjárhagsleg geta þjóðfélagsins leyfir slíkt. En eins og nú standa sakir, þá vantar okkur gjaldeyri til þess að fullnægja þeim óskum fólksins.

En til þess að þm. geti myndað sér rökstudda skoðun með eða móti þessu frv., þurfa þeir að fá skýrar upplýsingar um þetta mál.