28.02.1949
Efri deild: 67. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1594 í B-deild Alþingistíðinda. (2330)

60. mál, útflutningur og innflutningur á íslenzkum og erlendum gjaldeyri

Frsm. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Það kom fram við umr. um þetta frv. síðast, að tveir hv. þm. ræddu um það, að þeim þætti það óviðkunnanlegt, að menn í fjhn. hefðu ekki gefið út nema eitt nál. En ég verð að segja það, að það er ekkert óviðkunnanlegt, þar sem 2 leggja til, að frv. verði samþ., en hinir hafa óbundnar hendur um afgreiðslu þess. Hins vegar gerir hver og einn sér grein fyrir því, hvaða afstöðu hann tekur við atkvgr. um það.

Hv. 1. landsk. mælti á móti frv. og lagði til, að það yrði ekki samþ. Mér hefur virzt hv. þm. vera sanngjarn í málum og jafnan vilja hafa það heldur er sannara reynist. Þess vegna má hann ekki láta blinda sig, þó að ráðherra úr hans flokki sé á móti frv., en hann hefur komið þessu í framkvæmd. Ég kalla það hrein glöp, og þegar menn hafa einu sinni gert glöp, þá er það skiljanlegt, að þeir vilji ekki afnema þær reglur, sem þeir hafa sett, og eru glöp, því að þá er verið að sýna, að glöpin eru glöp, og það telja þeir hina mestu óhæfu, að ráðstöfun, sem ráðherra gerði, skuli vera óhafandi.

Hv. 1. landsk. vildi halda því fram, að reglur um brottför úr landi hafi verið settar í því skyni að spara gjaldeyri, svo að hann færi ekki í neitt lúxusflakk, eins og hann orðaði það. (SÁÓ: Ég vona, að hv. þm. hafi skilið, hvað ég átti við.) Já, já. Ég hneykslast ekkert á orðalaginu, ég veit, hvað hv. þm. átti við með því. Hann átti við óþarfa ferðir. En ég endurtek, að hér er ekki um neinn gjaldeyrissparnað að ræða. Hér er verið að gefa einni n., sem hefur mislagðar hendur, viðskiptanefnd, hér er verið að gefa henni vald til þess að ákveða, hvaða menn megi fara burt af landinu, þó að ekki sé um nein gjaldeyrisútlát að ræða. Menn mega ekki standa á þeim misskilningi, að hérna sé um gjaldeyrissparnað að ræða, því að það er ekki um neinn sparnað að ræða. Hér er um að ræða menn, sem boðnir eru af kunningjum eða venzlafólki, eða menn, sem eru að leita sér að atvinnu erlendis. Það hefur verið upplýst af n., að hún, þ.e.a.s. viðskiptanefnd, fari eftir þeirri reglu, að ef það eru börn, sem eru boðin af foreldrum eða öðrum náskyldum, þá sé veitt leyfi, en annars ekki. Fjarlægir ættingjar eða vinir fá ekki leyfi. Listi, sem fram hefur komið frá n., sýnir það glögglega, af hve miklu handahófi leyfin eru veitt. Hér er ekki um neina afsökun að ræða á því, hvernig n. framkvæmir sitt starf. En það má ekki blanda því saman, að þó að þetta verði nú afnumið, þá er ekki verið að skylda til þess að veita gjaldeyri, ef þetta frv. verður samþ., heldur á aðeins að halda uppi einföldustu og sjálfsögðustu mannréttindum.

Hv. 1. landsk. minntist á England í þessu sambandi. En ég vil þá endurtaka það, sem ég hef þegar upplýst, að Englendingar láta hvern mann, sem óskar þess að ferðast erlendis, fá gjaldeyri, sem nemur 35 sterlingspundum, og leyfa hverjum, sem þess óskar, að ferðast úr landinu. Eins er það með Dani, þeir láta menn hafa gjaldeyri fyrir 500 kr., ef þeir ferðast til vissra landa, sem þeir hafa viðskipti við. Menn sjá því vel, að ólíkt er nú aðhafzt. Þó efast ég um, að gjaldeyrisástand Englendinga og Dana sé nokkuð betra, en hér hjá okkur. Af 400 millj. kr. tekjum í erlendum gjaldeyri, sem við höfðum á síðasta ári, þá ættu það að vera nægilega ríflegar tekjur til þess, að ekki sé nauðsynlegt að setja aðrar eins þrælareglur um brottför úr landi. Þetta kemur þar að auki mjög ójafnt niður, og ef þeir halda, að þeir séu með þessu að koma í veg fyrir, að þeir menn, sem eiga gjaldeyri erlendis, geti notað þessa peninga, þá vil ég segja það, að það eru ekki þeir, sem eru útilokaðir frá því að ferðast, heldur kemur þetta harðast niður á þeim, sem umkomulausastir eru.

Ég vil benda á það í sambandi við gjaldeyrinn, að farmenn fá greidd 30% af kaupi sínu í höfnum erlendis. Það er siður en svo, að ég sé að segja, að það sé of mikið. En það hefur heyrzt, að þessi gjaldeyrir fari mikið til í ferðalög, ekki sjómannanna sjálfra, heldur annarra. Ég verð að segja það, að mér finnst það afar hjákátlegt, að sjómenn, sem t.d. sigla á England og hafa nóg pláss í skipum sínum, skuli ekki mega taka konur sínar með sér nema með því móti að ganga á eftir nefnd dögum saman til þess að fá leyfi til þess. Að vísu hafa leyfin verið veitt, en til hvers er verið að hafa þetta fyrirkomulag? Til hvers þarf að vera að sækja um slík leyfi?

Ég ætla svo ekki að fjölyrða um þetta frekar, enda er ég víst búinn að taka allt fram, en ég vil leyfa mér að vænta þess, að hv. d. sjái sér fært að láta frv. ganga áfram.