28.02.1949
Efri deild: 67. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1597 í B-deild Alþingistíðinda. (2333)

60. mál, útflutningur og innflutningur á íslenzkum og erlendum gjaldeyri

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Út af orðum hæstv. ráðh. skilst mér, að þetta mál hafi einhvern tíma verið tekið til umr. í ríkisstj. á sínum tíma. Vil ég spyrja hann, hvort hann einn ráðh. fylgdi þessari stefnu, að vilja ekki hefta frelsi Íslendinga, og vildi ég heyra, hvort hinir 5 ráðh. hafi allir verið á gagnstæðri skoðun eða hvort fleiri í ríkisstj. hafi verið á hans skoðun um þetta mál.

Eins og 4. gr. l. ber með sér, er ekki nema eðlilegt, að upp rísi ágreiningur um það, eins og líka er komið í ljós, hvort hægt sé að beita þessu valdi eins og gert er með reglugerðinni, og hefur verið farið til dómstólanna út af því atriði til þess að fá réttan skilning á því, hvort þetta ákvæði eigi stoð í lögum. Hefur nú fallið í þessu máli dómur í undirrétti, sem hefur verið áfrýjað, og er á því enginn vafi, að beðið verður eftir hæstaréttardómnum með mikilli eftirvæntingu. Í 4. gr. laganna segir: „Einstaklingar, sem búsettir eru hér á landi, skulu við brottför úr landi gera grein fyrir, að þeir hafi aflað sér gjaldeyris til fararinnar á löglegan hátt....“ Er ekki nema eðlilegt, að ákveðið sé í l., að sú skylda hvíli á þeim manni, sem fer með gjaldeyri úr landi. Og svo kemur: ... og jafnframt undirrita drengskaparyfirlýsingu um það að semja ekki við erlenda aðila um að fá erlendan gjaldeyri eða uppihald erlendis gegn greiðslu í íslenzkum gjaldeyri....“ Þetta var ekki heldur neitt óeðlilegt, því að löggjöfin vill hér fyrirbyggja, að hæg sé á þennan hátt að sóa erlendum gjaldeyri í ferðalög. Svo er sagt hér: „.... eða gegn nokkurs konar öðru endurgjaldi, nema samþykki íslenzkra gjaldeyrisyfirvalda komi til.“ Þetta ákvæði má auðvitað teygja á ýmsa vegu. Er t.d. hægt að skilja það þannig, að maður megi ekki vinna sér fyrir daglegum þörfum, ef hann er kominn út fyrir pollinn á annað borð? Ég vil spyrja: Hvaða eðlismunur er á því annars vegar að leyfa manni að fara til útlanda með t.d. 500 kr. í erlendum gjaldeyri og geta ekki komið í veg fyrir, að hann afli sér þeirra tekna, sem honum sýnist, og svo því hins vegar að leyfa manninum að fara út án þess að fá nokkurn gjaldeyri? Hafi það vakað fyrir hv. 1. landsk., sem hefur einn reynt að verja þetta mál, að fyrirbyggja, að hægt sé að eyða öðrum eða meiri gjaldeyri erlendis. en veittur er af gjaldeyrisn., þarf að gera hér miklu víðtækari ráðstafanir, og sé það ekki hægt, sé ég ekki, hvernig á að mismuna íslenzkum þegnum hér.

Hv. 1. landsk. sagði, að þetta væri ekki stórt mál. Það er ekki stórt mál, hvort Íslendingar fá að nota eina milljón í ferðalög eða 5 milljónir. En það er stórt mál, hvort ákveðnum aðila í landinu er gefið ótakmarkað vald til að leyfa einum manni að gera það, sem annar maður má ekki gera, þegar hér er ekki um neitt lögbrot eða glæp að ræða. Ég hefði getað skilið þetta, ef hér hefði verið um mikinn fjölda manna að ræða. En eftir því sem mér hefur skilizt, er hér aðeins um tiltölulega fáa menn að ræða, þannig að þetta ætti ekki að geta haft nein áhrif á afkomu, landsmanna. Mér finnst hv. 1. landsk. ekki hafa gert sér ljósa grein fyrir þessu atriði málsins, að hann er hér að halda uppi málsvörn fyrir því, að örfáum mönnum í landinu sé bannað að fara úr landi, án þess að það hafi nokkur raunveruleg áhrif á gjaldeyrismál þjóðarinnar. Og hann gekk enn lengra. Hann sagði, að þessu ætti helzt að beita gegn ákveðinni stétt í landinu, sem ekkert hefði að gera út fyrir landsteinana. Það er einmitt þessi hugsun, sem liggur á bak við: að gefa einhverjum aðila leyfi til þess að stöðva mann, sem hann álítur, að eigi ekkert erindi til útlanda. Sér ekki hv. 1. landsk., að hér er ekki um neitt smámál að ræða?

En svo er önnur ástæða. Þetta tal hv. 1. landsk. er ekki annað, en bergmál af því, sem hæstv. viðskmrh. hefur haldið fram í þessu máli, og meginrökin fyrir því, að hann vill halda þessu, er hegningin, sem á að leggja á þá, sem eiga að hafa stolið undan fé og geyma það í útlöndum. Hann hefur lýst því yfir, að það væri einmitt vegna þeirra manna, sem hann vildi ekki leyfa þetta, að þeir gætu fengið tækifæri til að nota þetta illa fengna fé til þess að skemmta sér fyrir eða sér til gagns og gamans. Og hv. 1. landsk. tók undir þetta og sagði, að hann vildi ekki stuðla að því, að þessir aðilar gætu notað þetta fé. En er hann víss um, að þessir klóku menn, sem þannig hafa getað snúið á löggjafann og hafa getað komið sér þannig fyrir, að ráðh. og ríkisstj. geta ekki með nokkru móti klófest fé þeirra, — er hann viss um, að þeir verði sérstaklega fyrir barðinu á þessum lögum? Ég hugsa, að það yrðu fæstir. En hins vegar hafa þessir menn, eins og ég sagði um daginn, gefið þessum lögbrjótum sérstakt tækifæri til þess að selja með tvöföldu verði, svo að ég skil nú ekki, hvers vegna á að halda þessu ákvæði í l. eða fella þetta frv. aðeins í hegningarskyni gagnvart þeim mönnum, sem þessi hv. þm., hv. 1. landsk., hefur stuðlað að, að fengju markað fyrir gjaldeyri sinn með 75% álagi.

Ég vildi nú spyrja hv. frsm. annars vegar og hv. fjhn. hins vegar, hvort ekki væri hægt að fá um það samkomulag, ef menn geta ekki komið sér saman um að samþ. frv. í heild, að samþ. þó a.m.k. 1. málsgr. 2. gr., því að það er meginatriðið í lögum þessum: að eigi megi setja reglur samkv. lögum þessum, er banni mönnum að fara til útlanda. Ég get vel skilið, að flm. vilji einnig halda 1. og 3. málsgr. þessarar gr. En jafnvel þó að fórnað yrði því til samkomulags, teldi ég stórt spor stigið í þessu máli, ef ekki mætti setja þessar reglur, því að eins og frsm. hefur tekið fram, er það hreint brot á mannréttindum í landinu og því samkomulagi, sem við höfum gert við aðrar þjóðir. Það fyrirskipar ekki á nokkurn hátt, að veita skuli þessum mönnum gjaldeyri, en það mundi að minnsta kosti forða okkur frá þeirri smán, að við séum að inniloka með löggjöf okkar eigin menn, og það mundi forða gjaldeyrisnefnd frá þeim vanda að vera að meta það og vega, hvort þessi og þessi maður skuli hafa leyfi til að vera frjáls eða hvort það eigi að halda honum í fjötrum hér heima. Það er ekki sæmandi frjálsri þjóð að fara svo með þegna sína, að þeir séu ekki frjálsir ferða sinna. Hitt er svo annars eðlis, hvort þjóðin vill leggja á sig þær kvaðir að skaffa þessum mönnum gjaldeyri til að ferðast fyrir, og má ekki blanda því saman.

Hv. 1. landsk. sagði, að hann hefði engin rök heyrt í þessu máli, sem gætu sannfært hann um, að þetta ætti að ná fram að ganga. Ég get vel trúað því. Hann heyrir aldrei nein rök í þessu máli nema fyrirskipanir frá flokksmönnum sínum. Ég er viss um, að ef hæstv. viðskmrh. lýsti því yfir, að hann væri samþykkur þessu, þá væru rökin komin. Þó að honum væri sýnt fram á það dag eftir dag, að þetta ætti ekki svona að vera, mundi hann ekki fallast á það, fyrr en honum yrði skipað af sínum flokksmönnum, og er það ekkert nýtt í þessu máli.