28.02.1949
Efri deild: 67. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1600 í B-deild Alþingistíðinda. (2335)

60. mál, útflutningur og innflutningur á íslenzkum og erlendum gjaldeyri

Frsm. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Mér skildist á síðustu ræðu hv. 1. landsk., að hægt væri að banna mönnum að fara úr landi samkvæmt ákvæðum 4. gr., en eins og hv. þm. Barð. benti á, er þess eins krafizt þar, að menn geri grein fyrir gjaldeyri sínum. En ef menn hafa nú engan gjaldeyri, hvað þá? Á þá að segja við þá: „Þið farið ekki. Þið eigið stolinn gjaldeyri.“? L. banna mönnum ekki að leita sér atvinnu í öðrum löndum eða fara þangað í boði kunningja sinna og þess háttar. Hv. 1. landsk. talaði um misnotkun á gjaldeyri. Er það kannske ætlunin að koma í veg fyrir það að þeir, sem hafa stolið gjaldeyri, geti notað hann? En hvernig ætlar viðskiptanefnd að fara að því? Á viðskiptanefnd að ákveða, hver á stolinn gjaldeyri, og veita mönnum fararleyfi í samræmi við það? Nei, það er sama, hve lengi þetta er rætt. Ef litið er á málið út frá heilbrigðri skynsemi, er það augljóst, að þetta er óframkvæmanlegt. — Ég ætla svo ekki að ræða þetta frekar, en hæstv. fjmrh. bað mig að skila því til hv. þm. Barð., að hann hefði gefið upplýsingar um sína eigin afstöðu í málinu, en teldi sér ekki skylt að gefa upplýsingar fyrir aðra.