07.03.1949
Neðri deild: 76. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1601 í B-deild Alþingistíðinda. (2345)

60. mál, útflutningur og innflutningur á íslenzkum og erlendum gjaldeyri

Samgmrh. (Emil Jónsson):

Mig langar til, áður en þetta frv. fer til n., að fara um það nokkrum orðum og gera grein fyrir skoðun minni á því. — Samkv. l. um innflutning og útflutning á íslenzkum og erlendum gjaldeyri hefur viðskiptanefnd haft heimild til þess að afla sér upplýsinga um það, hvernig þeir menn höfðu ráð eða möguleika til að fara utan, sem ekki var vitað um, að hefðu aflað sér gjaldeyris hjá n. eða á annan löglegan hátt. Það kom fyrir æði oft, að menn fóru utan án þess, að þessa gjaldeyris væri aflað, og getur vel verið, að það sé allt með felldu og mennirnir hafi fengið möguleika til þessara ferðalaga á eðlilegan hátt og þess vegna sé engin ástæða til að sporna neitt við þessum ferðalögum. En það hefur á hinn bóginn verið talið af ýmsum, að þessir menn ættu stóra fjársjóði erlendis, sem ekki hefðu komið hér fram, og þeir, sem utan færu og þessa sjóði ættu, notuðu þá sér til fyrirgreiðslu erlendis. Það hefur nú verið reynt af hálfu ráðun. að afla upplýsinga um innstæður manna erlendis. Bæði hefur þjóðbankinn verið beðinn um að afla þessara upplýsinga og svo hefur líka verið farin hin „diplomatíska“ leið, en hvorugt hefur gefið nokkra teljandi raun, þannig að menn eru nokkurn veginn jafnnær um það, hvað hér er um háar upphæðir að ræða og hverjir séu eigendurnir, og hefur þó verið gert það, sem hægt hefur verið, til þess að komast fyrir málið. Nú hafa þessir menn út af fyrir sig kannske ekki mikla ánægju af að eiga þessar upphæðir, nema þeir gætu notað þær annaðhvort til vörukaupa eða í ferðalög og fyrirgreiðslu fyrir sína eigin hagsmuni á þann hátt. Þess vegna hafa ákvæði þessara laga verið notuð af viðskiptanefnd og hún farið fram á það við þá menn, sem sóttu um leyfi til siglinga, að þeir gerðu grein fyrir því, hvaða möguleika þeir hefðu til ferðalagsins. Og ef þeir gerðu ekki grein fyrir því á þann hátt, sem n. tók gildan, gat hún bannað, að þessir menn færu úr landi. Um þetta hefur orðið dálítið þjark, eins og þm. kannast við, bæði í blöðum og hefur jafnvel lent í málaferlum út af þessu. En ég tel fyrir mitt leyti, að þetta sé nauðsynlegt aðhald og einn af þeim fáu möguleikum, sem gjaldeyrisyfirvöldin hafa til þess að reyna að komast fyrir þessar innstæður. Það eru að vísu margir möguleikar fyrir því, að menn fari af landinu án þess að hafa fengið gjaldeyrisleyfi héðan að heiman. Menn geta verið boðnir af skyldmennum og venzlamönnum, sem enginn vafi leikur á um. Það geta líka verið ýmsir sjómenn, sem hafa fengið frjálsan gjaldeyri til afnota til ferðalaga fyrir sig og sína. Við þessu er ekkert að segja, og ég ætla, að viðskiptanefnd hafi í flestum eða öllum tilfellum: þar sem hún taldi fullnægjandi upplýsingar fyrir hendi, veitt hið umbeðna leyfi. Hins vegar hafa þau tilfelli verið mörg, þar sem allar upplýsingar hefur skort eða upplýsingarnar verið allvafasamar. Ég tel, að með samþykkt þessa frv., þar sem þessum hömlum er kippt burt og menn frjálsir ferða sinna, hvort sem þeir hafa nokkra opinbera gjaldeyrismöguleika! eða ekki, sé l. breytt frekar til ills en til góðs fyrir gjaldeyriseftirlitið og stefnt að því að torvelda það mjög.

Enn fremur er í frv. ákvæði um, að menn megi semja við útlenda aðila um gagnkvæmt uppihald og greiðslur án nokkurrar íhlutunar. gjaldeyrisyfirvaldanna. Þó að þetta virðist kannske að sumu leyti ekki óeðlilegt í einstöku tilfellum, mundi þó það að setja upp svona almenna reglu fela í sér mikla hættu um það, að sá gjaldeyrir, sem væntanlega til félli frá erlendum ferðamönnum, yrði miklu minni en ella mundi og færi til einstaklinga, sem mundu nota hann án allrar íhlutunar yfirvaldanna. — Ég tel því þessi tvö höfuðatriði frv. ekki til bóta, en frekar til skaða fyrir það eftirlit, sem reynt hefur verið í þessum efnum af hálfu gjaldeyrisyfirvaldanna. Ég vil því vænta þess, að sú n., sem fær frv. til meðferðar, líti á það krítiskum augum og athugi það vel, áður en hún gefur því pósitíva fyrirgreiðslu.