22.04.1949
Neðri deild: 90. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1605 í B-deild Alþingistíðinda. (2348)

60. mál, útflutningur og innflutningur á íslenzkum og erlendum gjaldeyri

Frsm. minni hl. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti.Ég ætla ekki að fara mörgum orðum um þetta mál að sinni og mun láta það nægja að vísa til nál. á þskj. 553, en eins og þar stendur, þá hefur n. ekki orðið sammála um afgreiðslu þessa máls. Ég tel það mjög varhugavert að gera þær breyt. á viðkomandi l., sem stefnt er að með frv.

Þegar þetta mál var til meðferðar í Ed., þá fékk n., sem fjallaði um það, nokkrar upplýsingar frá viðskiptanefnd, hvernig hagað væri framkvæmd laganna að því er utanferðir varðar. Ég kynnti mér þessar upplýsingar, sem þinginu voru sendar, og hef ég sett nokkuð af þeim inn í mitt nál.

Þegar þetta hefur verið athugað, þá hefur komið í ljós, að æði mikill gjaldeyrir hefur farið til ferðalaga erlendis, og þeir eru nú orðnir margir landsmenn vorir, sem utan hafa farið, því að næstliðið ár hafa 500 leyfi til utanfara verið veitt að meðaltali á mánuði, eða um 6.000 á ári. Að vísu eru þarna taldir með útlendingar, sem hérna hafa dvalizt um lengri eða skemmri tíma við atvinnu og eru nú að hverfa heim aftur. En hér er samt um stóran hóp manna að ræða, og kostar þetta mikinn gjaldeyri, því að 2.800 leyfi hafa verið veitt fyrstu 10 mánuði ársins 1948, og nemur upphæð sú, er veitt hefur verið vegna þessara leyfa, 31/2 millj. kr. í erlendum gjaldeyri, en þar fyrir utan hefur viðskiptanefndin á um það bil hálfu ári veitt 2.200 leyfi til utanferða án gjaldeyris. Þó að um slík leyfi sé að ræða, þá er þó venjulega alltaf um einhverja gjaldeyriseyðslu að ræða, þó að erfitt sé að segja, hversu mikil hún sé, en ég fæ ekki betur séð, að meðan þannig er haldið á málunum, þá sé ekki ástæða til að kvarta um þessi efni. Þegar litið er á skömmtun á öðrum sviðum, t.d. eru, flestar vörur skammtaðar nú, enda þótt nauðsynlegar séu, þá orkar það naumast tvímælis, að gjaldeyrisyfirvöldin hafa verið mjög frjálsleg í þessum efnum. En meðan eins er ástatt um gjaldeyrismál okkar, þá tel ég það mjög varhugavert, að gjaldeyriseyðsla vegna utanfara aukizt frá því, sem nú er, en það gerir hún áreiðanlega, ef þetta frv. verður samþykkt.

Mér skilst, að formælendur þessa frv. geri aðallega athugasemdir sínar í 2. gr., en þar segir: „Eigi má setja reglur samkvæmt l. þessum, er banna manni brottför úr landi.“ Ég hef með viðtölum við n., eða við menn úr n., aflað mér upplýsinga um, hvernig framkvæmd l. sé hagað, og mér skilst, að menn hafi yfirleitt fengið leyfi til utanfara, ef um er að ræða heimboð venzlamanna, og ef það er athugað, hvað margir hafa fengið þessi leyfi, þá er það sýnilegt, að þeir eru mjög margir og að yfirleitt hefur ekki verið synjað leyfis. Það er talið varhugavert að setja bann við því, að menn fari úr landi, en það eru til fleiri hliðar á málinu. Það má t.d. spyrja, hvaða erindi menn eigi til útlanda, og það má spyrja um það, á hvern hátt þeir hugsa sér að sjá sér farborða, ef menn fara ekki til venzlamanna sinna, án þess að hafa gjaldeyrísleyfi. En þess eru mýmörg dæmi, að menn hafi farið utan og lent í vandræðum, en sendiráðin erlendis hafa neyðzt til þess að hlaupa undir bagga með þessum mönnum, og hefur það haft í för með sér gjaldeyrisútlát.

Þá er í öðru lagi í 2. gr. gert ráð fyrir, að einstaklingar búsettir hér á landi hafi heimild til þess að semja við erlenda aðila um uppihald erlendis fyrir sig og sína gegn endurgreiðslu með sams konar greiða hér á landi. Ég leyfi mér að segja í nál., að ef þetta verður í lög tekið, þá tel ég hætt við, að lítið af peningum frá erlendum ferðamönnum komi til bankanna og ráðstöfunar gjaldeyrisyfirvaldanna, jafnvel þó að ferðalög útlendinga hingað til lands aukist eitthvað á næstu árum. Hv. frsm. meiri hl. gerði athugasemd við þetta og sagði, að hér væri um venzlamannaviðskipti að ræða. Þetta verð ég að leyfa mér að draga í efa. Ég gæti vel gert mér í hugarlund, að hér skapaðist ný atvinnugrein fyrir menn, sem útveguðu þá uppihald og fyrirgreiðslu erlendis gegn endurgjaldi í sams konar fríðindum hér og gætu þannig sett upp verzlun með fríðindi erlendis. Frá því sjónarmiði yrðu þannig skertar gjaldeyristekjur þjóðarinnar.

Ég held svo, að ekki sé ástæða til þess að ræða málið meira, og læt nægja að vísa til nál. míns, þar sem ég legg til, að frv. verði fellt.