23.04.1949
Neðri deild: 91. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1613 í B-deild Alþingistíðinda. (2357)

60. mál, útflutningur og innflutningur á íslenzkum og erlendum gjaldeyri

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Það eru örfá atriði, sem ég vil taka fram til viðbótar við það, sem ég hef áður sagt, og í sambandi við það, sem hæstv. ráðh. sagði nú, þar sem hann vill leggja að jöfnu að fá ekki að fara úr landi, nema skattar og útsvör séu áður greidd, eða vegna tálmana í sambandi við gjaldeyrinn. Mér sýnist þetta tvennt nokkuð ólíks eðlis, og það er það vissulega að efni til, hvort lagðar eru tálmanir á, hvort menn fá að fara úr landi, þó að þeir hafi ekki staðið í skilum við bæjarfélag eða ríki, og það munu ekki vera gerðar kröfur til þess, að greitt sé meira en það, sem áfallið er á hverjum tíma af sköttum og útsvari, en í öðru lagi eru ekki um þetta lagafyrirmæli eins og þau, sem hér er um að ræða, en mun eiga rætur sínar að rekja til löggjafar um innheimtu skatta útlendinga frá 1946. í þeirri löggjöf er ráðh. heimilað að setja með reglugerð það skilyrði, að áður en menn fari úr landi, skuli þeir greiða áfallna skatta. Megintilgangurinn með því er að sporna við því, að úr landi fari menn, sem gæti orðið til þess, að ríkissjóður eða bæjarsjóður tapaði tekjum. Ég held því, að þar sé nokkuð öðru til að dreifa.

Þá var annað atriði, þar sem okkur hæstv. ráðh. greindi á, og það var, að hér væri verið að sleppa beizlinu fram af því að hafa hendur í hári erlendra innstæðna með því að samþ. þetta frv. Ég skildi þetta ekki vel hjá hæstv. ráðh., en ég held, að þetta geti ekki staðizt, að þetta geti nokkuð orkað á það að hafa upp á innstæðum erlendis, en að sjálfsögðu er ég reiðubúinn að skipta um skoðun, ef ný og sannfærandi rök koma um það.

Þá eru ein rök, sem ég get ekki skilið, og það er það, að dýrtíðarsjóður muni tapa tekjum, ef þetta frv. er samþ. Gerir hæstv. ráðh. þá ráð fyrir, að minni eftirspurn verði eftir ferðagjaldeyri, ef þetta frv. verður samþ.? Ég hef ekki nokkra trú á því, að þessi nýja miðlarastarfsemi, sem hann og hv. V-Húnv. voru að tala um, geti með nokkru móti orðið svo víðtæk, að eftirspurnin eftir gjaldeyri hjá viðskiptan. verði ekki svo mikil, að ekki þurfi eftir sem áður að neita einhverjum. M.ö.o., að enda þótt fallizt væri á þá röksemd, að eitthvað yrði keypt af gjaldeyri utan bankanna, ef þetta frv, væri samþ., þá sannar það ekki, að ekki verði eftir sem áður keypt jafnmikið af gjaldeyri og verið hefur. Mér skilst því, að ekki liggi fyrir nein rök um það, þótt þetta frv. verði samþ., að af þeim sökum verði seldur minni gjaldeyrir til ferðalaga en ella, og ég veit ekki, af hvaða sökum dýrtíðarsjóður ætti að tapa. Og jafnvel þó að salan yrði eitthvað minni, þá er það ekki með öllu illt, því að þá er sparaður nokkur gjaldeyrir, sem menn leggja nokkra áherzlu á að spara. Að vísu má segja, að gjaldeyristekjurnar minnkuðu þá nokkuð líka, ef þessi miðlarastarfsemi væri nokkur.

Ástæðan til þess, að ég kvaddi mér hljóðs, var sú, að ég fæ ekki séð rök fyrir því eða sterkar líkur, að gjaldeyrissala til ferðalaga yrði nokkuð minni eða tekjur dýrtíðarsjóðs ættu að minnka, þó að frv. yrði samþ. Ég held, að eftir sem áður mundi verða seldur eins mikill gjaldeyrir til ferðalaga og ríkið sæi sér fært að láta til þess.