23.04.1949
Neðri deild: 91. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1617 í B-deild Alþingistíðinda. (2362)

60. mál, útflutningur og innflutningur á íslenzkum og erlendum gjaldeyri

Samgmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Það er rétt, að allmörgum hefur verið synjað um gjaldeyri til utanferðar, en eftirspurnin eftir gjaldeyri hjá viðskiptanefnd mundi minnka svo mikið, ef frv. verður samþ., að ég efast um, að mikill gjaldeyrir yrði veittur í þessu augnamiði, með því að í frv. er opnuð leið til gjaldeyrisöflunar, sem ekki var til áður, og býst ég við, að flestir fari hana, og stórrýrna þá tekjur dýrtíðarsjóðs. — Hvað viðvíkur því, sem hv. 3. þm. Reykv. sagði, að hann vissi dæmi þess, að jafnvel nánustu ættingjar hefðu ekki fengið fararleyfi til skyldmenna sinna erlendis, þá get ég það eitt sagt um það, að í þeim reglum, sem komu frá viðskiptanefnd og ríkisstj. samþykkti, þá var gert ráð fyrir því, að skyldmenni gætu óhindrað heimsótt nánustu ættingja erlendis, og er það því brot á reglum, ef þetta hefur verið hindrað. Ef þessi dæmi eru til, þá er rétt að athuga þau, því að það var ekki ætlunin, að þetta kæmi fyrir.