23.04.1949
Neðri deild: 91. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1617 í B-deild Alþingistíðinda. (2363)

60. mál, útflutningur og innflutningur á íslenzkum og erlendum gjaldeyri

Frsm,. minni hl. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Hv. frsm. meiri hl., hv. 3. þm. Reykv., talaði um það, að hér þyrfti að létta af höftum og hömlum í gjaldeyris- og viðskiptamálum. Ég vildi taka það fram, að ég er sammála þessu, að höftin eru neyðarúrræði, sem alltaf er bezt að vera laus við. Hins vegar vitum við báðir, að ástandið er þannig, að ekki verður hjá því komizt að hafa þessar takmarkanir fyrst um sinn, og ég hef m.a. vakið athygli á því í nál., að á meðan svo er ástatt, að við þurfum að takmarka innflutning okkar af gjaldeyrisástæðum, tel ég ósamræmi í því að létta af hömlum á gjaldeyrisveitingum til ferðalaga. Hv. 3. þm. Reykv. sagði í gær, að hann sæi þarna ekki neitt samband á milli. En þessu er öfugt farið. Því minna sem bankarnir fá af erlendum gjaldeyri frá útlendum ferðamönnum því rýrari verður þeirra gjaldeyrissjóður og því minni verða innflutningsmöguleikarnir.

Hér er því vissulega samhengi á milli, og ég vildi taka þetta fram að gefnu tilefni, um leið og ég tek það einnig fram, að ég er hv. 3. þm. Reykv. sammála um það, að æskilegt væri, að þjóðin gæti verið laus við allar viðskiptahömlur og höft.