18.12.1948
Efri deild: 41. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 87 í B-deild Alþingistíðinda. (237)

66. mál, bifreiðaskattur o.fl.

Ásmundur Sigurðsson:

Herra forseti. Það er aðeins örstutt athugasemd. Hv. 2. þm. Árn. minntist á það síðast í ræðu sinni áðan, að það væru víða einkennileg hlutföll hér á landi varðandi brúargerð í hinum ýmsu héruðum. Ég er honum sammála um það, og eitt af þessu einkennilega er það, að búið er að margbrúa sum stórfljótin, önnur hafa hvergi verið brúuð. Þá vil ég benda á það aftur, að þál. er ekki sama og lög. En fjárlög eru lög, og þegar búið er að veita fé til einhvers mannvirkis á fjárlögum, þá er það röksemd, sem stenzt. Nú ganga atkvæði um þessar tillögur okkar, og vil ég ekki tefja umræðuna lengur.