03.05.1949
Efri deild: 93. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1621 í B-deild Alþingistíðinda. (2389)

204. mál, einkasala á tóbaki

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Út af ræðu 1. þm. N–M. (PZ) vil ég taka fram, að það voru ekki mín orð, að ríkissjóður þyrfti ekki meira en 30 millj. kr. teknaviðbót við það, sem gert er ráð fyrir á fjárl. Ég sagði aðeins, að fjárl. hefði verið skilað til 3. umr. með 30 millj. kr. halla. En í sambandi við það mál, sem hér liggur fyrir, skal ég geta þess, að sá rammi, sem í frv. er ákveðinn, er gerður af starfsmönnum við stofnunina og eftir till. þeirra, og þykir þar vera ákveðin hófleg prósentuálagning, miðað við aðstæður. En auk þess hefur þótt tilhlýðilegt, að Alþ. fylgist með þessum málum, og þykir mér það ekki óeðlilegt, enda til þess að gera ekki óviðráðanlega fyrirhöfn fyrir Alþingi eða viðkomandi ráðh., að sá háttur sé á hafður. Annars getur 1. þm. N–M. flutt um þetta brtt., ef hann vill, og gæti vel svo farið, að ég yrði breyt. hlynntur. En eins og frv. var búið í mínar hendur af mönnum, sem þessum málum eru kunnugir, hef ég lagt málið fyrir.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fara að ræða um fjármálin almennt í þessu sambandi og vil óska, að málið verði ekki tafið að óþörfu.