03.05.1949
Efri deild: 94. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1626 í B-deild Alþingistíðinda. (2404)

204. mál, einkasala á tóbaki

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Ég vildi út af orðum hv. 6. landsk. (StgrA) segja það, að það er ekki þann veg að skilja, að leggja eigi svona háa prósenttölu á tóbakið eins og hann tók til. Það verður hækkað eitthvað svolítið, en það verður mest á valdi forstjóra eða þeirra starfsmanna, sem þarna vinna og þekkja bezt inn á tegundirnar og kunna að greina; hvar hægt er að hækka án skaða fyrir söluna. Það mun verða reynt að jafna á milli tegunda, t.d. að það verði alls ekki eins hátt verð á neftóbaki eins og á sígarettum. Sígarettupakkinn kostaði kr. 1.25 1939, en kostar í kringum 5 kr. nú, og margir segja, að sú hækkun sé alls ekki í hlutfalli við það, sem ýmsar bráðnauðsynjar hafa hækkað á sama tíma.

Út af orðalaginu„ sem hv. 6. landsk. líka hefur fest auga á, vil ég benda á, að það er alveg það sama og verið hefur í þessari löggjöf frá upphafi, því að í l. um einkasölu ríkisins á tóbaki frá 8. sept. 1931 stendur: „Tóbakseinkasalan skal leggja frá 10%...“ o.s.frv: Hér er því ekki neitt nýtt fyrirbæri á ferðinni.

Ég skal ekkert svara fyrir hæstv. dómsmrh., en ég vildi geta þess varðandi það smygl, sem hv. þm. N–M. (PZ) sagði, að ætti sér stað, að það er ekkert tækifæri látið ónotað til þess að brýna það fyrir tolleftirlitsmönnum ríkisins að hafa sem bezt eftirlit með þessu, bæði á Keflavíkurflugvelli, í Reykjavíkurhöfn og á öðrum höfnum, og líta eftir því, að ekki sé smyglað inn í landið tóbaki eða öðru. Annars virðist mér það ekki standa í beinu sambandi við þetta mál. En það, sem gerir að verkum, að það þarf að hraða svona máli, er það, að meðan á þessu stendur, meðan álagningin er hækkuð á svona vöru, þá er ekki hægt að afgreiða neitt út frá einkasölunni til dreifistaðanna úti um landið, því að margir mundu vilja viða að sér, ef þess væri kostur, áður en hækkunin skellur á, og hins vegar þarf að hraða svona máli til þess að valda ekki viðskiptamönnunum óþægindum með því að lengja lokunina.