03.05.1949
Efri deild: 94. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1627 í B-deild Alþingistíðinda. (2405)

204. mál, einkasala á tóbaki

Steingrímur Aðalsteinsson:

Herra forseti. Ég skal ekki tefja þessar umr., en samkv. svari hæstv. fjmrh. við fyrirspurn minni áðan, þá er ekki ætlun ríkisstj. að framkvæma þetta frv. samkvæmt orðalagi þess, heldur beri að skoða þetta sem ramma, sem álagningin verði innan, frá 10–350%. En þá tel ég nauðsyn að breyta þessu orðalagi, og eins þó að hæstv. ráðh. upplýsi, að þetta hafi verið orðað svo áður, því að þá verður framkvæmdin á annan veg, en orðalagið gefur tilefni til. Það er engin ástæða til að halda því áfram, því að þegar það stendur, að álagningin skuli vera þetta og þetta, þá verður hún að vera það, ef þetta á að standa. Hins vegar má vera, að það sé á valdi einkasölunnar að framkvæma þetta á þann hátt, sem hæstv. ráðh. nú skýrir, að það eigi að vera, en mér finnst réttara að viðhafa það orðalag að hafa þarna „má“ í staðinn fyrir „skal“. Mér er ekki kunnugt um, hvað er mesta álagning, en ég geri ráð fyrir, að þessu verði hagað, eins og hæstv. ráðh. talaði um, eftir því sem einkasölunni er heppilegt, og álagningin verði einhvers staðar þarna á milli, en ekki bundin fyrirmælum, sem felast í l. og þessu frv. Þess vegna leyfi ég mér að flytja skriflega brtt. um þetta orðalag, en ég get beðið með hana til 3. umr., ef ekki eru fleiri á mælendaskrá.