03.05.1949
Efri deild: 94. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1628 í B-deild Alþingistíðinda. (2407)

204. mál, einkasala á tóbaki

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Það er rétt hjá hv. þm. Barð., að ég hef unnið hjá ríkissjóði. Ég hef unnið þar síðan 1909 og tel, að ég hafi unnið fullkomlega fyrir því kaupi, sem ég hef fengið, og aldrei tekið hundruð þúsunda fyrir ekki neitt, eins og sumir aðrir. — Hvað snertir smygl í gegnum Keflavíkurflugvöllinn og togarana, þá er ég bara að tala um það, sem allir vita. Þá get ég sagt það, að ég nota sjálfur slíkt tóbak, og mér hefur ótal sinnum verið boðið óstimplað tóbak í húsum, þar sem ég hef komið, og ef hv. þm. reykti og þekkti tóbak frá einhverju öðru, mundi hann vita þetta. Ég efast um, að hann þekki tóbak frá súkkulaðimola eða vindli. Þetta er staðreynd, sem ég hef sagt, enda sagt af hæstv. dómsmrh. áðan.