03.05.1949
Efri deild: 94. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1629 í B-deild Alþingistíðinda. (2413)

204. mál, einkasala á tóbaki

Sigurjón Ólafsson:

Herra forseti. Ég vil segja, að ég er fylgjandi þessu frv. og skil ekki afstöðu þeirra hv. þm., sem eru á móti því, að ríkissjóður afli sér tekna í þessu tekjuleysi, þegar hann þarf að uppfylla kröfur, sem Alþ. krefst, að sé fullnægt. Ég hygg, að þessi tekjuhækkun komi niður á þeim einum, sem nota tóbak, og það er engin lífsnauðsyn. Menn geta hætt að nota það, og það er vitað, að þetta er ekki holl nautn. Ég hygg, að hækkunin geti ef til vil þýtt að menn minnki tóbaksnotkun sína, og þá er þetta ávinningur frá sjónarmiði þeirra, sem telja hana óholla. En það, sem kom mér til að standa á fætur, voru birgðir þær, sem liggja hjá smásölum. Ef smásalar hækka, sem er opin leið fyrir þá, geta þeir strax í dag stungið undan því, sem þeir eiga óselt, og geymt það. Þá lítur svo út sem tóbakið sé selt, og ekkert getur komið í veg fyrir það, nema merki sé sett á það tóbak, sem selt verður út eftir hækkunina. Ég vil mælast til þess af hæstv. ráðh., að þetta verði gert, svo að sá hagnaður lendi ekki að óverðugu hjá smásölum og með röngu, sé haft af neytendum. Ég veit ekki, hve miklar birgðir eru hjá smásölum, en það er óeðlilegt, að hagnaður af þeirri sölu lendi í vasa seljenda. og verður ekki komið í veg fyrir slíkt nema með því móti, að tóbakið verði merkt. — Ég vildi láta þetta koma hér fram.