03.05.1949
Efri deild: 94. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1629 í B-deild Alþingistíðinda. (2414)

204. mál, einkasala á tóbaki

Steingrímur Aðalsteinsson:

Herra forseti. Hæstv. ráðh. kallaði þessa till. merkilegheit, en mér finnst ástæða til að breyta þessu orðalagi, þegar það stríðir í bága við framkvæmdirnar eins og þær eiga að vera, og ber því að leiðrétta það. Það kostar ekkert og tefur málið ekki neitt, og er eðlilegast að gera það nú við 1. umr.

Ég hafði ætlað mér að gera fyrirspurn til hv. 1. landsk. (SÁÓ), en nú er hann vikinn af fundi. Hann lýsti sig fylgjandi frv., og rökin voru þau, að tóbak væri engin lífsnauðsyn, og sagði, að þeir, sem ekki teldu sig hafa efni á að kaupa það, ættu bara að hætta að nota það. Ég vildi nú spyrja hann, af því að hann er formaður stærsta sjómannafélags landsins og telur sig fulltrúa sjómanna, hvort hann ætlist til, að þeir hætti að nota tóbak, en það gera þeir mikið, sem stafar að sumu leyti af því, að þeir búa við mikla vosbúð og vökur og þurfa því að hressa sig á því. Ætlast hv. þm. til, að þeir hætti að nota þessa hressingu, eða vill hann rýra kjör þeirra?