04.05.1949
Neðri deild: 98. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1632 í B-deild Alþingistíðinda. (2425)

204. mál, einkasala á tóbaki

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Þegar hæstv. ríkisstj. tók við völdum, þá var það eitt af því, sem hún lýsti ákveðnast yfir, að hún ætlaði sér að vinna á móti dýrtíðinni í landinu og gera mjög ákveðnar ráðstafanir til þess að sjá um, að almenn verðlækkun færi fram. Í samræmi við það sagði ríkisstj., þegar hún batt kaupgjaldsvísitöluna við 300 stig, að hún ætlaði að sjá um, að aðrir liðir færu svo lækkandi á eftir. Og það átti ekki að vera nema nokkurra mánaða fórn af hálfu launþeganna í landinu að sætta sig svo við lækkun kaupgjaldsins, að það miðaðist við 300 vísitölustig, því að raunverulega framfærsluvísitalan mundi komast niður í það áður, en langt liði. Nú hefur hæstv. ríkisstj. í þeirri stuttu grg. fyrir þessu frv., sem hér liggur fyrir, kveðið yfir sjálfri sér dóm, sem er öllu harðari, af því að honum er komið fyrir í tveim línum, heldur en nokkur önnur stjórn gæti gert, þó að hæstv. fjmrh. hafi komið fram með þann raunverulega tilgang, sem liggur á bak við þetta frv., að afla tekna fyrir ríkissjóð. Hins vegar standa þessi snjallyrði hér í grg. þessa frv., með leyfi hæstv. forseta: „Verðlag hefur farið stöðugt hækkandi í landinu undanfarið, og er eðlilegt, að verðlag á tóbaksvörum, sem ríkissjóður nýtur hagnaðar af, fylgist með.“ Sem sé, vegna þess að pólitík hæstv. ríkisstj. um verðlagslækkun hefur beðið skipbrot á öllum sviðum þjóðlífsins, þá sé alveg óverjandi að láta tóbakið verða eftir, — pólitík ríkisstj. skuli endilega bíða skipbrot um verðlagið á tóbaki líka, því að það sé það, sem ríkisstj. geti ráðið við. Mér þykir þetta koma úr hörðustu átt, að þessi röksemd skuli koma fram frá hæstv. ríkisstj. sjálfri. Mér finnst, að svona stutt og laggóð grg. sé ákaflega skörp gjaldþrotayfirlýsing á þá pólitík, sem ríkisstj. hefur fylgt viðvíkjandi verðlækkunarmálum. Og ekki er nú undarlegt, þegar hæstv. ríkisstj. ályktar svona, þótt einhverjum öðrum yrði það nú á í landinu að fara að álykta svo, að fyrst hæstv. ríkisstj., eftir að verðhækkun hefur farið fram á öllum þeim sviðum, sem hún kannske ekki réð við að öllu leyti, fyrst hæstv. ríkisstj. þá hækkaði verðlag á þeim sviðum, sem hún réð við, til samræmingar upp á við, þá sé það ekki undarlegt, að almennir borgarar hugsuðu á eftir, að ekki væri óeðlilegt, að þeir hækkuðu hjá sér í samræmi við það, sem ríkisstj. gerir. — Þetta er nú viðvíkjandi grg. frv., sem mér finnst það snjöll, að ég álít rétt að gera hana að umtalsefni á undan frv. sjálfu.

Hækkunin á tóbaksverðinu þýðir hins vegar auðvitað enn þá frekari dýrtíð í landinu. Og af því að svo er komið, að hér er orðið um almenna neyzluvöru að ræða, þar sem tóbakið er, sem líka kemur inn í vísitöluna, þá kemur það í ljós, að hér er um gömlu aðferðina að ræða, að hækka álögur á almenning, þegar auka þarf tekjur ríkissjóðs. Ég vil þess vegna aðeins lýsa því yfir, að ég er andstæður þessari till., sem hér liggur fyrir. Hins vegar mun ég ekkert vera að tefja fyrir þessu á neinn hátt, en þótti rétt að gera þessa grein fyrir afstöðu minni og sérstaklega að gera að umtalsefni þessa niðurstöðu hæstv. ríkisstj. sjálfrar út af tveggja ára stjórnarfari hennar í landinu, eins og þetta birtist í þessari stuttorðu grg.