04.05.1949
Neðri deild: 98. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1633 í B-deild Alþingistíðinda. (2427)

204. mál, einkasala á tóbaki

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Aðeins nokkur orð út af því, sem hv. 5. þm. Reykv. (SK) var að segja. Mér virtist hann að nokkru leyti beina því til mín, að ég eða samflokksmenn mínir hefðu verið á móti því, að niðurskurður færi fram á ríkisútgjöldum. Ég man ekki betur, en að við 2. umr. fjárl. þá væri það hv. 5. þm. Reykv. og aðrir stuðningsmenn ríkisstj., sem stóðu vörð á móti ýmsum þeim sparnaðartill., sem meiri hl. fjvn. hafði orðið sammála um og margir flokksmenn okkar stóðu með. Ég held, að hv. 5. þm. Reykv. hafi, þótt hann sé hinn mikli sparnaðarpostuli þingsins, sýnt sig í því að greiða atkv. á móti ýmsum slíkum till., svo að þessi hv. mesti niðurskurðarmaður þingsins má vara sig á því að hafa gleymt þessu. - Það hafa hins vegar ýmsar till. komið fram, sem þm. Sósfl. hafa verið sammála um, en ekki hafa fundið náð fyrir augum þingsins. Og ekki hefur heldur vantað, að við byðumst til þess að koma með till. um tekjuöflun, sem ekki hefur heldur fundið náð fyrir augum meiri hl. Alþ., af því að þær till. mundu þýða það að einhverju leyti, að tekinn væri spónn úr aski þeirra auðugu í þessu landi, í staðinn fyrir, að þetta eru aðeins nýjar álögur á almenning, sem hér er komið frv. um.

Ég vildi aðeins segja þetta út af orðum þeim, sem féllu hjá hv. 5. þm. Reykv.