04.05.1949
Neðri deild: 99. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1635 í B-deild Alþingistíðinda. (2435)

204. mál, einkasala á tóbaki

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Eins og hv. frsm. lýsti hér áðan, þá hefur minni hl. iðnn. ekki getað orðið sammála meiri hl. um allar gr. frv. og ber því fram brtt. á þskj. 569, sem nú er nýlega útbýtt. Þegar raforkumálastjóri og raforkuráð sendi brtt. sina við þetta frv., sem hefur að mestu leyti verið tekin upp á þskj. 550, þá var einnig innifalið í þeim brtt.málsgr., sem við nú berum fram á þskj. 569, eins og hv. frsm. einnig tók fram. Mér þykir því rétt, að við þessa umr. komi fram það sjónarmið, sem vakti fyrir raforkumálastjóra og raforkuráði, og vildi, með leyfi hæstv. forseta, mega lesa upp úr grg., sem fylgdi þeirri brtt. En þar segir svo:

„Til þess að kleift verði að veita einhver lán samkvæmt þessari grein, er því ákvæði bætt inn í, að slíkar lánveitingar sem hér um ræðir verði ekki teknar upp, nema sjóðnum verði um leið séð fyrir auknum tekjum, er því nemi. Fé raforkusjóðs er þegar ráðstafað það langt fram í tímann, að ekki verður hægt að veita nein lán samkvæmt þessum tölulið, nema sjóðnum sé jafnframt séð fyrir auknum tekjum. Ákvæði um lánstíma hafa verið felld niður úr frv., enda gert ráð fyrir, að þetta atriði ásamt fleiri nánari ákvæðum verði ákveðið í reglugerðinni. Lánstíminn mun þá verða ákveðinn í samræmi við meðalendingu rafstöðvanna, sem mun vera 6–8 ár. Ákvæðið um lágmarksstærð hefur einnig verið fellt niður úr frv. og gert ráð fyrir, að það verði tekið upp í reglugerð. Væntanlega verður þar einnig miðað við 4 kílóvatta lágmarksstærð.“

Þetta er það, sem raforkumálastjóri og raforkuráð hefur látið fylgja sinni till., og verði þessi málsgr. felld niður úr þeirri till., þá gerbreytir það frv., og það gæti orðið til þess, gagnstætt tilætlun flm., að ekkert lán yrði veitt á næstu árum til þessara rafstöðva, eftir því sem upplýst er frá raforkumálastjóra, þar sem þegar er búið að ráðstafa langt fram í tímann öllu því fé, sem ætlazt er til, að einnig verði notað til þessara framkvæmda. Því vil ég biðja hann og aðra hv. þm., sem vilja ljá þessu máli lið, að athuga, hvort ekki sé rétt og sjálfsagt að samþ. einnig þessa till. á þskj. 569. Hún er sannarlega ekki borin fram af neinni andúð gegn frv., nema síður sé, heldur af beinni þörf til þess að tryggja, að framkvæmdin verði örugg og að lagafyrirmælin verði annað, en dauður bókstafur. Hv. frsm. sagði, að eins og fjárhag ríkissjóðs væri nú komið, þá gæti það verið sama og að stöðva málið að fullu, ef þessi till. væri samþ. Ég get á engan hátt verið sammála um það, að það velti á því í framtíðinni um afgreiðslu fjárl., hvort þessari upphæð, 100–150 þús. kr., yrði varið til þessara framkvæmda eða ekki. Það verður að sjálfsögðu að vera á mati Alþ. á hverjum tíma, hvort það lætur ákveðna upphæð til þessara útgjalda eða einhverra annarra, en hitt er upplýst í dag, að ef þessi gr. er ekki sett inn í frv., þá verður frestun á framkvæmdum og engin líkindi til þess, að það fáist neitt fé til þessara framkvæmda, nema það verði tryggðar einhverjar tekjur á annan hátt. Ég sé ekki ástæðu til þess að ræða meira um málið og ætla ekki að halda uppi málþófi um það, og mun ekki taka til máls aftur í sambandi við málið, nema sérstakt tilefni gefist til.