04.05.1949
Neðri deild: 99. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1636 í B-deild Alþingistíðinda. (2437)

204. mál, einkasala á tóbaki

Einar Olgeirsson:

Eftir orðum hæstv. ráðh. að dæma er hæsta hækkun, sem hér er um að ræða, 15%. Ég skal játa með hæstv. ráðh., að erfitt er um það að segja, hvaða áhrif þessi hækkun kann að hafa. Ég vil í þessu sambandi minnast á, að sú saga hefur gengið, að áfengistekjurnar hafi undanfarna mánuði minnkað um eitthvað 10%. Þannig að sú hækkun, sem framkvæmd hefur verið á áfenginu, mun jafnvel ekki gera meira, en vega upp á móti þeim minnkandi kaupum, sem þar hafa orðið. Með öðrum orðum, þegar kaup manna á vörunni minnka svona stórkostlega, getur orðið það stórt skarð, sem höggvið er í ríkissjóð með því, að meira að segja svona hækkun geri ekki meira en að halda í horfinu. Og þá erum við komnir að því, að þetta er vegna þess, að sjálfur grundvöllurinn undir atvinnulífinu er að bíla. Það er sjálf afkoma fólksins, sem er að versna það mikið fyrir ráðstafanir ríkisstj., að fólkið hefur ekki efni á að veita sér það, sem það gat veitt sér áður, og þess vegna er hætta á, að svona ráðstafanir verði ekki til þess að skaffa viðbótartekjur í ríkissjóð, heldur aðeins til þess að hindra, að skarð verði í þá áætlun, sem þegar hefur verið gerð.

Ég vildi aðeins láta þetta koma fram. Ég vil ekki tefja fyrir þessu nú, því að það er óþægilegt að hafa lengi lokað í þessari stofnun, sem er aðalmjólkurkýr hæstv. ríkisstj. En eftir þessum upplýsingum að dæma finnst mér hætta á því, að þetta geri lítið meira, en að vega á móti því, sem áður hafði verið áætlað, þannig að það er ekki víst, að þarna sé um stóra tekjuöflun að ræða upp í þær mörgu milljónir, sem vantar.