17.03.1949
Neðri deild: 82. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1640 í B-deild Alþingistíðinda. (2466)

164. mál, orkuver og orkuveitur

Atvmrh. (Bjarni Ásgeirsson):

Herra forseti. Fjhn. hefur orðið við þeirri bón landbrn. að flytja þetta frv., en tildrögin til þess, að það er borið fram, eru óskir viðkomandi héraðs, Austur-Húnavatns- og Strandasýslna, sem bornar hafa verið fram við atvmrn. um, að það beitti sér fyrir löggjöf um þetta efni. Þessi héruð eru mjög þurfandi fyrir aukna raforku. Í Austur-Húnavatnssýslu er gömul rafstöð, sem nú er orðin allt of lítil og auk þess úr sér gengin. Á Skagaströnd er notaður dieselmótor, en slíkt er mjög ófullnægjandi þar, sem eru stór iðnfyrirtæki eins og síldarverksmiðja. Vegna stóraukinnar iðju á Blönduósi hefur raforkuþörfin þar aukizt afar mikið. Þetta leiðir til þess, að brýn nauðsyn er, að fljótlega verði hafizt handa og reist nýtt orkuver fyrir þessa staði og sýsluna í heild. Ástandið er svipað í Strandasýslu. Þar eru engar stórvirkjanir, og kauptún eins og Hólmavík nota dieselstöðvar. Það hefur verið unnið nokkuð að rannsókn á aðstöðunni til virkjunar þar á Ströndum, og eru þær athuganir komnar nokkuð áleiðis, þó að raforkumálastjóri telji þá rannsókn ekki nægilega glögga enn. Hins vegar hefur hann fallizt á, að rétt sé að setja löggjöf um orkuvinnslu á þessum stöðum, en áskilur að fá frekari tíma til undirbúnings og tilhögunar verksins, áður en ráðizt verði í framkvæmdir. Enda þótt fyrirtæki sem þessi séu í senn æskileg og líkleg til að bera sig fjárhagslega, þá skortir mjög fé til framkvæmdanna. Það er því nægilegt verkefni fyrir dyrum, þó að l. um þetta séu samþ. nú, að afla fjár, en það verður að sjálfsögðu verkefni ríkisstj. að sjá fyrir því.

Ég sé ekki ástæðu til að óska eftir, að málinu verði vísað til n., þar sem það er flutt af n., en vildi hins vegar biðja að athuga málið nú milli umr. og gefa út um það nál.