17.03.1949
Neðri deild: 82. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1641 í B-deild Alþingistíðinda. (2467)

164. mál, orkuver og orkuveitur

Jón Pálmason:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að þakka hæstv. atvmrh. og fjhn. fyrir flutning þessa frv. Eins og tekið er fram í grg. fyrir frv., er farið fram á, að athugaðir verði möguleikar til að bæta úr raforkuþörf Austur-Húnavatnssýslu. Fyrir tveimur árum fékkst áætlun frá raforkumálastjóra um virkjun Laxár. Eftir þeirri áætlun mundi slík virkjun nægja fyrir alla Austur-Húnavatnssýslu„ Vestur-Húnavatnssýslu og jafnvel stærra svæði, en áætlaður kostnaður við slíka virkjun er um 15 millj. kr. Það kom auðvitað í ljós, að eins og fjárhagsmál þjóðarinnar standa nú, yrði verulegur dráttur á slíkri stórvirkjun. Það kom því í minn hlut og ráðamanna sýslunnar að ráða fram úr og leita samkomulags við stjórnvöld landsins, hvernig bætt yrði úr brýnustu þörf héraðsins. Eftir athugun á þessu fékk ég nú eftir áramótin áætlun um 5 millj. kr. virkjun. Með henni er gert ráð fyrir, að hægt verði að fullnægja þörf kaupstaðanna og þeirra býla, sem hún liggur næst. Þó að þessi stöð fullnægi ekki þeirri þörf, sem fyrir er í héraðinu, væri hún til mikilla hagsbóta, því að í kaupstöðunum eru þau fyrirtæki, sem vinna úr afurðunum, og þar eru skólarnir og aðrar stofnanir, sem brýnasta þörf hafa fyrir raforkuna, en sú rafstöð, sem nú er til, nægir á engan hátt, og horfir til vandræða, ef ekki verður bráðlega bætt úr.

Eins og hæstv. ráðh. tók fram, er ekki gert ráð fyrir, að hafizt verði handa fyrr en búið er að afla fjár til virkjunarinnar, og þó að ólíklega horfi í því efni, þá tel ég nauðsynlegt að fá lögfestingu á þessari framkvæmd. Ég vil líka benda á og biðja fjhn. að athuga og hafa samráð við mig um, að því verði ekki slegið föstu, að verkið skuli fyrst hafið, þegar allt féð er fyrir hendi. Þetta tek ég fram vegna þess, að aðstaðan er þannig, að auðvelt er að taka þessa virkjun í áföngum. Það er t.d. gert ráð fyrir að byggja þró til þess að koma í veg fyrir, að stöðin stoppist vegna snjóa. Enn fremur er gert ráð fyrir að stífla Svínavatn, og kosta slíkar framkvæmdir mikið fé. Af þessu má sjá, að auðvelt verður að framkvæma þessa virkjun í áföngum, og getur heimild fyrir því, að verkið megi hefja, þegar aflað hefur verið fjár, þó að ekki sé nema til nokkurs hluta allrar virkjunarinnar, orðið til mikilla hagsbóta og flýtt fyrir verkinu.

Varðandi 2. lið, um virkjun í Strandasýslu; hef ég ekki þekkingu til að ræða um, en geri ráð fyrir, að þar sé um mikla þörf að ræða.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fara um frv. fleiri orðum, en vænti, að Alþingi sjái sér fært að samþ. það.