23.04.1949
Neðri deild: 91. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1645 í B-deild Alþingistíðinda. (2481)

164. mál, orkuver og orkuveitur

Jón Pálmason:

Herra forseti. Þetta mál hefur dregizt nokkuð frá því það var lagt fram, en út af því er engin sérstök ástæða til að kvarta. Hitt vildi ég aftur á móti vona, að það verði afgr. áður en þingi lýkur, en þá þarf það að fá hraðari afgreiðslu, en hingað til.

Varðandi þær aths., sem fram komu hjá hv. frsm. fjhn., sé ég ástæðu til að segja nokkur orð. — Það var rétt, sem hann gat um, að athuganir hafa farið fram á virkjunarmöguleikum í Austur-Húnavatnssýslu, og hefur raforkumálastjóri og fleiri verkfræðingar verið þar að verki oftar, en einu sinni. Frá þeirra hálfu lá fyrir á sínum tíma áætlun um virkjun á Laxá fyrir 15 millj. kr., er gæfi 6–7 þús. hestöfl. Með því fyrirkomulagi mundi þessi orkuveita hafa getað fullnægt raforkuþörf þessara tveggja sýslna. En það hefur sýnt sig, að það er ekki á færi neinna einstakra héraða né kauptúna að ráðast í slíkt á eigin spýtur, og fjárhag ríkisins er svo háttað, eins og öllum er kunnugt, að lítt er hugsanlegt, að þessu yrði komið í verk á nálægu tímabili. Eins og hv. frsm. gat um, kann að vera möguleiki til enn stærri virkjunar. Vötn, sem liggja á heiðum framan við Austur-Húnavatnssýslu, eru þannig sett, að með tiltölulega litlum kostnaði má veita þeim ofan í Svínavatn um Vatnsdal og Sléttadal og stórauka þannig virkjunarafl Laxár. Eins og gefur að skilja, mundi mér vera það kærast og sjálfsagt héraðsbúum öllum, að hægt væri að ráðast þarna í hinar stærri framkvæmdir, en það er svo með þetta, eins og mörg framfaramál önnur í okkar landi, að við verðum að takmarka okkur við minni framkvæmdir, en æskilegt væri, þar sem nauðsynlegt fé skortir. Þess vegna eru forráðamenn á þessum stöðum ásamt hæstv. atvmrh. og raforkumálastjóra sammála um að velja þann kostinn, sem líklegt er, að framkvæmdir verði á. Það skal játað, að jafnvel þótt ekki verði farið í stærri framkvæmdir, en frv. gerir ráð fyrir, eru þær þó svo dýrar, að það mun verða erfiðleikum bundið að afla þess fjármagns, sem þörf er á. En eins og ég veik að við 1. umr. þessa máls, þá hagar þannig til, að hægt er að taka þessar framkvæmdir í áföngum. Í Laxá er gamalt orkuver, rúmlega 200 hestafla, eins og hv. frsm. veit, og hefur Blönduóskauptún bjargazt við það fram að þessu. En þessi veita er orðin úr sér gengin og ófullnægjandi, en þessa virkjun má auka, án þess að það skaði síðari framkvæmdir, og er því enginn skaði skeður, þótt þarna yrði byrjað á stíflu og gengið frá aðfærsluskurðinum, sem að veitunni liggur, en hann er opinn og stíflast oft, þegar þörfin er mest á vetrum fyrir raforkuna.

Ég vil því mælast til þess, að frv. fái að ganga áfram að þessu leyti eins og það er og að hæstv. atvmrh. gefi engin fyrirheit um það, að ekkert verði þarna að gert fyrr en búið er að athuga allar hugsanlegar framtíðarleiðir.

Mér eru ókunnugar aðstæður við þá virkjun, sem gert er ráð fyrir í 2. tölul. 1. gr. En ef nauðsyn þætti bera til að gera breyt. á frv. varðandi þann lið, er það auðvitað meinlaust af minni hálfu. Mér skilst nú, að það sé engu síður nauðsynlegt fyrir kauptúnin þar að fá. þá virkjun upp, en þar er ég ókunnugur hinni teknísku hlið, sem mér er aftur á móti kunnug við Laxá.

Ég sé ekki ástæðu til að fara um þetta fleiri orðum að sinni, en vil eindregið óska þess, að hv. þm. fylgi málinu og það nái afgreiðslu á. þessu þingi.