23.04.1949
Neðri deild: 91. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1647 í B-deild Alþingistíðinda. (2483)

164. mál, orkuver og orkuveitur

Frsm. (Skúli Guðmundsson):

Ég geri ráð fyrir, að mér sé óhætt að segja það fyrir hönd n., að hún telji þetta fullnægjandi, eins og á stendur, sem hæstv. atvmrh. hefur um málið sagt, þar sem hann lýsir því yfir, að hann telji það ekki eðlilegt, að nokkur ráðh. láti hefjast handa um svona fyrirtæki fyrr en raforkumálastjóri hefði mælt með því af tekniskum ástæðum. Raunar var það, sem n. vildi undirstrika, sem kemur fram í fskj. á þskj. 464, en þar segir svo um Laxá:

„Laxá fremri þykir þó einna líklegust af fallvötnum sýslunnar til virkjunar. Þó er virkjun Laxár kostnaðarsöm, ef nýtt er allt afl hennar, en verði aðeins virkjaður bezti kafli fallsins, er með því á glæ kastað nokkrum þúsundum hestafla, sem ekki verða síðar nýtt á hagkvæman hátt.“

Og enn fremur það, sem hann skýrði n. frá varðandi byrjunarathuganir um Vatnsdalsá, en nú er alveg sams konar fyrirvari hafður um virkjun Þverár, og gat ég þess áður.

Út af því, sem hv. þm. A-Húnv. sagði, þarf ég ekki að segja margt, því að ég geri ráð fyrir, að skoðanamunur sé lítill, en honum mun vera það jafnljóst og mér, að 1.900 hestafla virkjun er allsendis ónóg til frambúðar, þegar tillit er tekið til þess, að tvö kauptún eru þarna í héraðinu, Blönduós og Skagaströnd, og einkum þó ef draumarnir um Skagaströnd rætast, þá verður mjög mikil þörf fyrir raforku þar. En við bætast góðar sveitir kringum kauptúnin, sem einnig verður að sjá fyrir raforku, og þá er þessi virkjun ekki nema til bráðabirgða. Hv. þm. gat þess viðvíkjandi vötnunum á hálendinu, að það mætti veita þeim í Svínavatn, en ég vil benda á, að skv. því, sem fram kemur í áliti raforkumálastjóra, verður mikilli orku kastað á glæ, ef þessi leið er farin og aðeins virkjaður bezti kaflinn, því að raforkumálastjóri segir í grg. sinni, að „verði aðeins virkjaður bezti kafli fallsins, er með því á glæ kastað nokkrum þúsundum hestafla, sem ekki verða síðar nýtt á hagkvæman hátt.“ Með því að setja þessa virkjun við Laxá, þá er ekki hægt að nota meira vatnsaflið. Þetta gerir það að verkum, að mínu áliti, að nauðsynlegt er, að málið sé betur athugað, en ekki sé rasað í neinu, því að ég geri ráð fyrir, að hv. þm. A-Húnv. sé sammála mér um það, að það, sem hér er stefnt að, er að fá næga raforku.

Sé ég svo ekki ástæðu til að fara um þetta fleiri orðum, en ég geri ráð fyrir því, eftir orðum hæstv. atvmrh., að framkvæmdum verði hagað þannig, að ekki verði hafizt handa fyrr en raforkumálastjóri telur málið nægilega athugað, en komi nýtt í ljós við nánari athugun, er rétt að hafa það heldur, ef betra er. — Get ég svo látið máli mínu lokið nú.