23.04.1949
Neðri deild: 91. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1648 í B-deild Alþingistíðinda. (2484)

164. mál, orkuver og orkuveitur

Jón Pálmason:

Herra forseti. Ég get verið þakklátur bæði hæstv. atvmrh. og hv. frsm. fjhn. fyrir undirtektir þeirra, og í sjálfu sér er ekki um ágreining að ræða frá minni hálfu varðandi það, sem kom frá hv. þm. V-Húnv. Að öðru leyti er mér ljóst, að það gæti orðið óþolandi bið fyrir kauptúnin Blönduós og Skagaströnd, ef fara ætti út í svo stóra virkjun, sem kostar marga tugi milljóna. Annars er ég alveg sammála hv. þm. V-Húnv. um þörfina fyrir raforkuna, en það verður bara heldur að takmarka sig við lítið en ekki neitt. Vitanlega dettur mér ekki til hugar að halda, að hafizt verði handa um framkvæmdir þvert ofan í álit sérfræðinga, en þó að þetta verði samþ., þá er hægt að rannsaka betur öll skilyrði til virkjunarinnar og undirbúa málið þannig að öðru leyti.