18.12.1948
Neðri deild: 46. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 88 í B-deild Alþingistíðinda. (249)

66. mál, bifreiðaskattur o.fl.

Einar Olgeirsson:

Í sambandi við mál það, sem var til umr. í fjhn., þá vil ég vekja athygli á því, að það var frv. til staðfestingar á brbl., sem gefin voru út á s.l. vori um benzínskatt 1948. Ég er ekki vanur að tefja mál í fjhn., enda þýddi ekki að sakast um orðinn hlut, því að sannleikurinn var sá í því máli, að ríkisstj. hafði gleymt að framlengja l. um benzínskattinn, en lét innheimta hann samt sem áður. Þegar svo komið var fram á sumar, gaf hún út brbl., sem ekki komu svo fyrir þingið fyrr en í desember. Í sambandi við það mál var svo minnzt á benzínskatt 1949, og taldi ég, að nægur tími væri að ræða hann í nefndinni, þegar það mál kæmi fyrir. Ég hef ekki ætlað mér að tefja sérstaklega fyrir þessu máli, en hins vegar mun ég ekki líða það, að þingvenjur séu brotnar með því að vísa slíkum málum ekki til nefndar. Og nú krefst ég að fá atkvæði um það aftur, hvort vísa á málinu til nefndar, og verði það ekki gert, þá vil ég láta hæstv. ríkisstj. vita, að 2. og 3. umr. geta dregizt nokkra daga.