02.05.1949
Efri deild: 92. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1652 í B-deild Alþingistíðinda. (2499)

164. mál, orkuver og orkuveitur

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Ég vildi aðeins taka undir það, sem hv, þm. Str. sagði, að byrjunarframkvæmdir í þessu máli ættu ekki að fara fram fyrr, en ríkið hefði tryggt sér möguleika til fjáröflunar, líkt og segir hér í grg. Ég skal ekki draga það í efa, að hér sé um allmikla framleiðslustaði að ræða. Hólmavík er orðin það nú þegar, og Skagaströnd mætti vel verða það, ef aðstaðan batnaði þar, og hafa raunar orðið þar nokkrar framfarir til bóta. En það er, eins og öllum er kunnugt, ákaflega erfitt um útvegun lánsfjár til mannvirkja slíkra sem þessara og raunar fleiri. Mér finnst það rétt, sem fram kom hjá hv. þm. Str., að ekki séu hafnar framkvæmdir fyrr, en séð sé fyrir tekjuöflun til þess að koma verkinu í það lag, að það svari einhverjum rentum, því að það hefur oft brugðið við í sambandi við stórar vatnsvirkjanir, t.d. Siglufjarðarvirkjunina, að þar hefur verið farið of hratt á stað með kostnaðinn, án þess að verki yrði lokið. Andakílsárvirkjunin er tiltölulega mjög efnileg framleiðslustöð og hefur nú verið framkvæmd, en samt er komið á daginn, að þessi virkjun hefur orðið að leita til ríkisins í skjóli þeirrar ábyrgðar, sem þar var gengið í, vegna þess að þar svaraði reksturinn ekki heldur kostnaði. Hins vegar er mjög eðlilegt, að menn óski eftir því, að heppilegir staðir, eins og hér um ræðir, fái aðstöðu til þess að hafa í fyrsta lagi rafmagn og í öðru lagi, að það sé ekki selt við einhverjum ókjörum, og frv. eins og þetta er náttúrlega einn óskaliðurinn í því efni.

Það er sjálfsagt rétt, sem hv. þm. Str. sagði, að þessir menn, sem hann minntist á, hafi átt viðtöl við einhverja úr ríkisstj. um þessi mál. En ekki minnist ég þess, að ég hafi verið viðstaddur né það hafi verið tekið fyrir á flokksfundi eða rætt við þann flokk, sem ég er í. En það hefur enga höfuðþýðingu fyrir málið.

Eins og fram kom í ræðu hv. frsm., yrði því aðeins ráðizt í þetta, að eitthvert fé væri fyrir hendi og það væri tryggt, að ekki ræki allt í rogastanz í miðjum klíðum og þannig færi kannske forgörðum dýr vinna, sem hefði kannske getað farið betur, hefði verið beðið með framkvæmdirnar, þar til hægt hefði verið að sjá málinu farborða. Þegar litið er á málið sem slíkt, sem viljayfirlýsingu um það, að þegar ástæður leyfi, — og þær ástæður hef ég nefnt og frsm. líka, og þeirra er getið í grg., — þá sé ekki ástæða til að hafa á móti því, að þetta frv. verði samþ., en einasta, eins og horfir nú, með þeim forsendum, að þessi skilyrði séu fyrir hendi, hin fjárhagslega geta.

Ég er því miður ekki nógu kunnugur staðháttum til þess að dæma um, hve mikinn rétt brtt. 613 á á sér til þess að verða tekin til greina, en mér virtist hv. flm. hennar, þm. Dal., mæla allsterklega með samþykki hennar. Kann vel að vera, að rétt sé að samþ. hana, en vitaskuld yrði það því aðeins, að hún félli inn í þann ramma, sem fyrir er, ef samþ. væri, þ.e. sem ein virkjunin í þeirri röð af virkjunum, sem landsmenn hafa hug á, að ráðizt verði í, þegar fært þykir. Allir vita, að ríkisstj. eða réttara sagt ríkisvaldið á mjög margt óleyst af hendi, sem leysa þarf af hendi og þingið hefur samþ., vegna þess að ekki hefur fengizt nægilegt lánsfé. Og það er einmitt þetta, sem hefur leitt það af sér, að stundum hefur verið farið út í framkvæmdir, þó að lánsfé hafi engan veginn verið tryggt, og þannig hafa myndazt skuldir ríkissjóðs við lánsstofnanir, sérstaklega Landsbankann. En allir hljóta að vera sammála um það, að við séum komnir nógu langt og of langt út á þá braut. Og ég tek þetta mál ekki þannig, að með því sé stefnt út í hið sama og átt hefur sér stað með þær mannvirkjaframkvæmdir, sem þingið hefur að vísu áætlað lán til, en vill fara út í, án þess að lánið sé fengið. Ég tek þetta mál ekki undir þann flokk, sumpart vegna þess, sem segir í grg. fyrir frv., og líka vegna þess, sem frsm. sagði um það, að ekki væri ætlazt til, að út í framkvæmdir væri farið, fyrr en séð væri fyrir nægilegu fé til þess að koma þessu verki í framkvæmd. En um sjálfa virkjunina og þörfina fyrir hana hef ég ekkert nema gott að segja, því að ég get vel skilið, að þeir staðir, sem þarna um ræðir, þurfi á þeim gæðum eða nytsemdum að halda, sem raforkan kann að veita.