02.05.1949
Efri deild: 92. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1654 í B-deild Alþingistíðinda. (2501)

164. mál, orkuver og orkuveitur

Gísli Jónsson:

Þegar þetta mál var til 1. umr., ræddi ég ekki um það, því að ég bjóst við, að það færi til iðnn., þar sem ég á sæti. Þá kemur fram till. um að vísa málinu til fjhn., því að það hafi verið flutt af fjhn. Nd., og var meiri hl. Ed. með því, að rétt væri að setja málið til fjhn., því að það væri hreint fjárhagsmál. Auk þess þótti óviðeigandi að láta málið ekki fara til sams konar n. og það hafði verið hjá í Nd., þó að þessi regla væri brotin litlu síðar í sambandi við annað mál. Hvað því viðvíkur, að frv. hafi verið sent til fjhn. vegna þess, að þetta mál væri hreint fjárhagsatriði, er það að segja, að ég sé ekki, að þessi hlið málsins hafi verið rannsökuð eða athuguð neitt gaumgæfilega. Mér skilst á frsm., að hún hafi kannske ekki einu sinni verið athuguð, því að þetta yrði ekki framkvæmt fyrr, en til þess fengist fé, og væri þá kannske eðlilegast að setja það beint inn í frv., að ekki mætti byrja á þessum framkvæmdum fyrr, en búið væri að tryggja lán, því að það kemur ekki fram í frv., heldur í bréfinu frá raforkumálastjóra. En mér hefði fundizt eðlilegt að taka þetta atriði til rækilegrar athugunar. Málið er nú 9 eða 11 milljón króna mál og er afgr. þannig, að aðeins 3 menn af 5 í n. taka þátt í afgreiðslu þess, án þess að gera neina grein fyrir fjárhagshliðinni. En nú vildi ég spyrja: Hefur n. þá einnig athugað hina hlið málsins, sem snýr að raforkumálunum sjálfum og iðnaðarhliðinni, sem að sjálfsögðu hefði verið athuguð í iðnn., og í sambandi við það vildi ég spyrja: Hefur n. athugað 9. gr. raforkul., en þar stendur:

„Nú telur ráðherra að fengnum till. raforkumálastjóra rétt að reisa ný orkuver eða koma upp nýjum orkuveitum eða auka við hin fyrri orkuver eða orkuveitur eða festa kaup á slíkum mannvirkjum, og leitar hann þá til þess samþykkis Alþingis og gerir jafnframt tillögur um það, á hvern hátt fjár til þeirra framkvæmda skuli aflað. Tillögum sínum til Alþingis lætur ríkisstj. fylgja nákvæmar áætlanir um tekjur og gjöld af þessum virkjunum.“

Ég neyðist til að halda fram, að þetta frv. sé alls ekki í samræmi við ákvæði 9. gr. Er ekki fjhn. ljóst, eins og iðnn. er fullkomlega ljóst, að þessum málum var á sínum tíma beint inn á það svið, að ekki væri til þess ætlazt, að þm. almennt gætu fengið samþ. slíkt ákvæði eins og hér er talað um, því að slíkt mundi leiða til hreins öngþveitis í landinu? Fjhn. hefur ekki hér gert neina áætlun um byggingarkostnað, rekstrarkostnað eða tekjuöflun né heldur bent á neinar leiðir, hvernig eigi að afla fjár, þar sem ekkert er um þetta í frv. Ef fjhn. hefði gert þetta, hefði ég getað skilið, að hún vildi fá þetta mál til afgreiðslu, en það hefur hún bara alls ekki gert. Ég vildi gjarna, að forseti gæti fengið atvmrh. til þess að vera hér, því að ef þetta er ný stefna, sem taka á upp í þessum málum, getur verið, að það séu aðrir fulltrúar hér á Alþ., sem einnig verða að gæta hagsmuna þeirra héraða, sem þeir eru fulltrúar fyrir. Þessi ákvæði í 9. gr. eru komin þar inn fyrir það, að ekki þótti rétt að láta það velta á atkvæðamagni Alþ. á hverjum tíma, að einhver héruð gætu fengið óundirbúið milljónaframkvæmdir á þessu sviði. Ég hefði því mjög óskað að fá um það upplýsingar hjá hæstv. ráðh., hvort hér á að fara inn á nýja braut, því að þá yrði að koma með miklu fleiri brtt. við frv.

Ég held, að það hafi verið árið 1942,, að ákveðið var að hefjast handa um að virkja Dynjanda og Mjólká. Þá voru þessi lög samþ. hér og þessar framkvæmdir fyrirhugaðar af framleiðendum sjálfum á Vestfjarðakjálkanum, eins og ýmsar aðrar virkjanir, svo sem Siglufjarðarvirkjunin og Andakílsá. Þessi héruð eyddu mjög fé í að láta rannsaka þessa væntanlegu virkjun. Var áætlað af verkfræðingum, að þessi virkjun mundi kosta 13 millj. kr., og var ákveðið á fundi á Ísafirði, að í hana skyldi ráðast. En það þótti rétt þá — og hafði ég nokkur áhrif á það — að láta rannsaka nokkru nánar, en gert hafði verið undirbúning þessa máls, og var hann þó miklu betri, en þessi undirbúningur hér virðist vera eftir þeim gögnum, sem fyrir liggja. En þegar þetta var rannsakað gaumgæfilega, kom í ljós, að það mundu ekki verða 13 millj., heldur 30 millj., sem virkjunin kæmi til með að kosta. Andakílsárvirkjunin kostaði ekki heldur eins og áætlað var og ekki heldur Siglufjarðarvirkjunin, heldur urðu tvöfalt dýrari. Þegar þetta kom upp úr kafinu, var þessu frestað. Síðan komu l. um raforkumál, sem hér eru frá 1946, og hefur raunverulega margsinnis verið lofað af raforkumálastjóra, að þetta skyldi verða sú virkjun, sem fyrst kæmi til greina eftir að búið væri að fullnægja þeim virkjunum, sem þegar var búið að taka í lög. Ég tel því, að eigi nokkur ný virkjun að ganga fyrir hér, sé það þessi virkjun fyrir Vesturland og óhjákvæmilegt að bera fram brtt. við þetta frv. um það, að sú virkjun eigi forgangsrétt, eftir þeim undirbúningi, sem gerður hefur verið og samkvæmt þeim loforðum, sem gefin hafa verið af raforkumálastjóra. Ég hef hins vegar ekki borið þetta fram, vegna þess að ég hélt, að menn mundu halda sig strangt að fyrirmælum 9. gr. l. Mér datt ekki í hug, að annað kæmi til greina. [Atvmrh. kemur inn í salinn.] Ég var að segja, atvmrh., að mér skildist, að þetta frv. hér bryti beint í bága við 9. gr. laga frá 1946, því að þar er ákveðið, að hverri nýrri virkjun eigi að fylgja ákveðin heildarrekstraráætlun, áætlun um byggingarkostnað, rekstrarkostnað og áætlun um það, hvernig afla skuli fjár. Mér skilst, að ekkert af þessu liggi fyrir í þessu frv. Ég vil enn fremur benda ráðh. á, að ef farið er inn á þessa braut, að samþ. á Alþingi heimildartill. um að setja raforkustöðvar hingað og þangað á landinu án þess að fylgja ákvæðum 8. og 9. gr., fer um þetta eins og vegina. En ég man, að þegar þetta var rætt í iðnn. á sínum tíma, var þetta sett inn til þess að fyrirbyggja, að ekki væri hægt að fara með þetta eins og vegamálin. — Ég var einnig að benda á að ef hugsað er að víkja frá þessari stefnu, er óhjákvæmilegt fyrir okkur fulltrúana fyrir Vesturland að bera fram till. um, að Dynjandi sé tekinn upp. Og úr því að ráðh. er hér, vildi ég gjarnan fá upplýst: Á hvaða stigi stendur það mál hjá hæstv. ríkisstj.? Hvernig er það með þær rannsóknir, sem nú liggja fyrir í sambandi við Dynjandavirkjunina? Hefur útkoman orðið sú, að ekki þyki tiltækilegt að reisa orkuver fyrir Vestfirði? Og séu ekki þau skilyrði álitin vera fyrir hendi, að tiltækilegt sé að virkja Dynjanda og Mjólká, hvernig er þá hugsað að leysa raforkuþörf Vestfjarða yfirleitt? Ég vildi gjarna fá upplýsingar um það hjá hæstv. ráðh.

Ég mun ekki sjá mér fært að fylgja þessu frv. óbreyttu og mun að sjálfsögðu bera fram till. um, að inn í frv. verði sett ákvæði um Dynjanda og Mjólká, nema því aðeins að yfirlýsing komi frá ráðh. um það, að Alþ. eða ríkisstj. leggi fram frv. um það, t.d. á næsta þingi, að það verði næsta virkjun á landinu og gangi fyrir því„ sem hér er til umræðu, vegna þess að Alþingi er búið að lofa, að þetta mál skuli ná fram að ganga eins fljótt og mögulegt sé. Viðkomandi aðilar eru búnir að eyða í þetta miklu fé. Ég skal ekki segja, hve mikið það er, en ég gæti trúað, að rannsóknarkostnaðurinn skipti hundruðum þúsunda.

Ég skal á þessi stigi málsins ekki tefja málið lengur, en vænti þess, að ég heyri frá ráðh., hvort hann álíti ekki, að þetta frv. stríði gegn 9. gr. l., eins og það er nú, því að mér sýnist ekki, að þau skilyrði séu uppfyllt eins og það er nú. Enn fremur vildi ég vita, hvernig hann hugsar sér, að leyst verði úr raforkuþörf Vestfjarða yfirleitt.