02.05.1949
Efri deild: 92. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1661 í B-deild Alþingistíðinda. (2505)

164. mál, orkuver og orkuveitur

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Það er ekki vafi á því, að þessi raforkumál eru kannske allra stærstu málin, og er hörmulegt til þess að vita, ef hin minnkandi fjárgeta ríkisins segir fyrst og fremst til sín í því, að ekki er hægt að gera neitt í raforkumálunum, a.m.k. ekki fyrir aðra landsmenn en þá, sem búa á suðvesturhorni landsins, í Rvík og nágrenni hennar. Það virðist nú vera svo og hefur verið svo nokkur undanfarin ár, að hvar sem verið hefur ymprað á því að leita eftir heimildum til vatnsvirkjunar í öðrum landshlutum, þá er sagt að það strandi á féleysi. Hérna er til umr. að lögfesta eða veita heimildir í l. — því að heimildarl. eru þetta bæði að formi og efni — til þess að virkja Laxá í Austur-Húnavatnssýslu í 1.900 hestafla orkuveri og að virkja Þverá úr Þiðriksvallavatni í Strandasýslu í allt að 1.400 hestafla orkuveri. Samkvæmt áætlun raforkumálastjóra virðist virkjun Laxár í Austur-Húnavatnssýslu ásamt háspennulínu eiga að kosta 5 millj. kr., og virkjun Þiðriksvallavatns, ef fyrri till. er tekin, á að kosta 3,3 millj. kr., en væri virkjunin þar höfð helmingi stærri, ætti sú virkjun að kosta 5.678.000 kr. Það er ómögulegt að segja annað, þegar litið er á þessar áætlanir, en að mannvirkin líta út fyrir að verða fremur dýr. Öðru mannvirkinu er ætlað að vera orkugjafi fyrir tvö kauptún, Blönduós, Höfðakaupstað, og kannske einhverjar sveitir að auki og kostar,. eins og ég áðan sagði, 5 millj. kr. Hinni virkjuninni er ætlað að vera orkugjafi fyrir Hólmavíkurþorp og einhverja sveitabæi þar í kring. Raforkumálastjóri telur hagkvæmara, að þeirri virkjun sé hagað þannig, að sú dýrari komi til greina, sem kostar 2.600 kr. á hvert hestafl, en þá kosta þessar virkjanir 11 millj. kr. og eru fyrir þessi þrjú þorp aðallega. Það er að vísu rétt, sem kom hér fram áðan, að það vantar kostnaðaráætlanir yfir þessi mannvirki. Raforkumálastjóri hefur látið frá sér fara plögg um hvoru tveggja verkin og einnig það verk, sem fram er komin brtt. um, að bætt verði við frv. En í áliti raforkumálastjóra eru alls konar vangaveltur, og furðulegt þykir mér það, að hann virðist ekki vera búinn að gera upp við sig það viðfangsefni, hvort hagkvæmara sé að ráðast í þessar virkjanir eða byggja nýjar dieselstöðvar og flikka upp á þær, sem fyrir eru. Þetta virðist vera fyrsta reikningsdæmið, sem raforkumálastjóri ætti að leysa, áður en hann teldi sig færan um að segja nokkurn skapaðan hlut um, hvað ætti að gera í þessu máli. Ummæli raforkumálastjóra og vangaveltur eru á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Nú eru, að vísu nokkur atriði enn óathuguð, sem að mínum dómi þarf að rannsaka, áður en því er slegið föstu, hvernig Laxá skuli virkjuð. Enn fremur virðist mér orka tvímælis, hvort tímabært sé að verja 5 millj. kr. í nýja virkjun og veitu eða hvort heldur ætti að lagfæra gömlu vatnsaflsstöðina og setja upp dieselmótora til viðbótar. Loks er nú mjög slæmt útlit að því er við kemur fjáröflunarmöguleikum til rafveituframkvæmda.“

Með öðrum orðum, það er ekki búið að leysa úr þeim vanda, hvort hagkvæmara sé að ráðast í þessar vatnsvirkjanir eða að reisa mótorstöðvar eða dubba upp á þær, sem fyrir eru. — Að því er virkjun Þiðriksvallavatns snertir, þá er þetta eins óafgert frá hendi raforkumálastjóra. Hann segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Þá gildir hið sama um virkjun handa Hólmavik sem um virkjun Au.-Hún., að telja má, að orki tvímælis, hvort tímabært er að verja allt að 5 millj. kr. í virkjun og veitu heldur en að auka um sinn mótorrafstöð Hólmavíkur, enda eins og fyrr er sagt mjög erfitt um fjárútvegun til rafveituframkvæmda.“ Það er einnig óuppgert dæmi hér, hvort hagkvæmara er að nota mótorstöðvar eða ráðast í vatnsvirkjun. Í þessari grg. raforkumálastjóra er það upplýst, að virkjunarkostnaður að því er snertir Þiðriksvallavatn er áætlaður 1.700 kr. á hvert hestafl. Það virðist ekki mjög há upphæð, en ég sé í plöggum hjá hv. þm. Dal. (ÞÞ) áætlun um virkjunarkostnað Þrándargils í Dölum, sem hann hefur borið fram brtt. um og mér hrýs hugur við, en sá kostnaður er 4.800 kr. á hvert hestafl. Það er náttúrlega gífurlegur kostnaður.

Nú hefur hér verið blandað inn í þessar umr. virkjunarmálum Vestfjarða, og get ég því ekki látið hjá líða að víkja dálítið að því máli. Vil ég þó ekki, eða er ákaflega nauðugur til, að tengja það mál við þetta mál, sem hér liggur fyrir, því að ég veit það með vissu, að sé 20 til 30 milljón kr. mál sett hér til viðbótar þessu, þá er það til þess að drepa þessi mál öll. Við fáum ekki þokað Vestfjarðavirkjuninni áfram með því. Það vakir ekki fyrir mér að tryggja, að bókstaflega ekkert sé gert í þeim málum, sem Ísendingum ríður meira á að leyst séu, en nokkur önnur mál. Það er alveg rétt, sem hv. þm. Barð. sagði áðan, að héruðin á Vestfjörðum stofnuðu fyrirtæki fyrir nokkuð mörgum árum, h.f. Orkuver Vestfjarða, sem lét framkvæma og bar kostnað af undirbúningi og rannsókn á virkjun Mjólkár í Arnarfirði og Dynjandafossa í Arnarfirði. Þessi undirbúningur, sem þá var unninn og kostaður af h.f. Orkuver Vestfjarða, var endurskoðaður af sérfræðingum, sem vegamálastjóri og raforkumálastjóri tilnefndu, þ. á m. sérfræðingi frá Hejgaard og Schults og síðan af Höskuldi Baldvinssyni. Þessar áætlanir voru svo prófaðar af Finnboga Rút Þorvaldssyni verkfræðingi og hafa legið lengi tilbúnar hjá raforkumálastjóra. Um þetta hafa verið gerðar kostnaðaráætlanir, og hafa þær verið margendurskoðaðar. Gerðar hafa verið mælingar um langt árabil á vatnsföllum, sem um er að ræða. Gerðar hafa verið áætlanir um kostnað og rannsakaðir möguleikar fyrir línustöðvar fyrir öll háspennulínukerfin og gerðir uppdrættir að öllum þeim mannvirkjum. Þessi mannvirki hafa legið fyrir að fullu undirbúin í mörg ár, en í mörg ár hefur staðið á því, að fé hefur ekki verið fyrir hendi til að byrja framkvæmdir. Það er ekkert smáatriði. Það er auðvitað meginatriðið og þröskuldurinn, sem þessi mál hnjóta um. Ég bað raforkumálastjóra í vetur að gefa mér allar upplýsingar um, hvernig þetta mál stæði, og gerði hann það fyrir nokkru síðan. Þykir mér leitt að hafa þau plögg ekki við höndina nú. Staðreyndin er sú, að það mál er að fullu undirbúið, og eins og hv. þm. Barð. upplýsti, hefur því verið marglofað, að sú virkjun skuli vera látin ganga fyrir öðrum virkjunum, sem ekki er byrjað á nú. Það loforð stæðist ekki, ef ný löggjöf yrði nú samþ. og þannig yrði litið á, ef til framkvæmda kæmi, að þá skyldi farið eftir því, sem dagsetning á afgreiðslu málsins hér segði til um. Ég mundi alveg mótmæla slíku. Ég teldi því Dynjandavirkjunina ekki í hættu stadda, þó að heimildarl. um virkjun Laxár í Austur-Húnavatnssýslu og Þiðriksvallavatns yrðu samþ., en um þær skortir upplýsingar, sem margar eru mikilvægar, svo að undirbúningi þessara síðastnefndu virkjana gæti aldrei orðið lokið á undan undirbúningi og rannsókn Vestfjarðavirkjunarinnar, því að hann liggur fyrir fullgerður nú þegar.

Annars finnst mér nokkuð miklu máli skipta að upplýsa vangaveltur raforkumálastjóra um þetta mál, um það, hvort ekki sé hagkvæmara að slá vatnsvirkjuninni á frest, þó að hann að vísu í öðru orðinu telji, að það sé vegna peningaleysis fyrst og fremst, og ráðast heldur í að byggja mótorrafstöðvar fyrir lengri eða skemmri tíma. En mótorrafstöðvar eru í raun og veru heildarúrræði hans í þessum efnum. Til þess að slá á frest orkuveitunni fyrir Vestfirði, þá er það sama ofan á: Peningar eru ekki til, til þess að ráðast í vatnsvirkjun. Hins vegar eru til peningar til að leysa þetta mál í bili með mótorrafstöðvum. Það ráðlagði hann þar, og þetta var gert. Það voru byggð upp lágspennukerfi í Súðavík, Bolungavík, Suðureyri, Þingeyri, Flateyri, Bíldudal og Patreksfirði og settar upp mótorrafstöðvar á öllum þessum stöðum. Nú geta menn athugað, hvort það muni ekki kosta ríkið nokkurn gjaldeyri að setja upp slíkar mótorrafstöðvar í 9 sjóþorpum og setja þær upp einungis sem bráðabirgðaúrlausn. Ég hygg, að þessi kostnaður slagi hátt upp í 9 millj. kr., þegar frá öllu er gengið. Þessar stöðvar eru ásamt öðru fleiru að sliga þjóðarbúskapinn, sem ekki ber sig neitt vel í gjaldeyrismálum. Þær brenna gjaldeyri fyrir hundrað þús. kr. árlega allar saman í olíu, a.m.k. þegar með er tekin gjaldeyriseyðsla í varahluti og viðhald á öllum þessum stöðvum. Það furðulega er, að aldrei heyrist neitt kvak frá rafmagnseftirlitinu um útreikninga á því, hvernig þetta dæmi tekur sig út borið saman við það að ráðast í vatnsvirkjanir, jafnvel með lántökum. Raforkumálastjóri er alltaf að ympra á, að betra sé að leysa þetta í bili með alls konar mótorstöðvarusli, sem hrúgað er upp víðs vegar, jafnvel þó að til séu fyrir hendi hin beztu skilyrði til vatnsvirkjunar. Það sér hver maður, að ekki er hægt að vera án raforku í útgerðarbæjum eins og Ísafirði eða Patreksfirði. Það er ekki hægt að vera án raforku í þessum þorpum, sem öll eru búin að koma fótum undir hraðfrystiiðnað. Þungamiðja atvinnulífsins í öllum þessum þorpum byggist á sjávarútvegi og ein eða fleiri hraðfrystistöðvar eru á hverjum þessum stað. Ég hygg, að varla muni vera hægt að benda á nokkurn hluta landsins, þar sem ekki búa nema 7 þús. manns og framleiddur er annar eins gjaldeyrir og fólkið í þeim byggðarlögum gerir, sem Vestfjarðavirkjunin er ætluð. En þá er bara um þetta tvennt að ræða, hvort hagkvæmara sé fyrir þjóðina að sjá fyrir raforku til allrar þessarar framleiðslu, sem þarna fer fram, með mótorstöðvum, sem eru dýrari í rekstri og hindra vöxt atvinnuveganna. Hundruð þús. kr. verðmæti er í voða, ef ein eða fleiri þessara stöðva bíla alvarlega. Það er sjálfsagt bótin í málinu, að sá skellur kemur á fólkið í viðkomandi byggðarlögum, en ekki ríkissjóð, en það er í rauninni lítt verjandi fyrir því. Ef ætti að bollaleggja frekar um það, hvort væri réttlátara að veita 10 millj. kr. til vatnsvirkjunar fyrir þorpin á Skagaströnd, Blönduós, Hólmavík og Höfðakaupstað eða veita fé til Vestfjarðavirkjunarinnar, þó að bara væru virkjaðir Dynjandafossar, en ekki Mjólká, sem dygði fyrir allt svæðið frá Patreksfirði til Súðavíkur og virkjunin gefur 6.500 hö., og sú áætlun, sem um þetta hefur verið gerð, er margendurskoðuð, og mun verkið kosta 30 millj. kr. með orkugjafa, spennistöðvum, háspennulínu og innanbæjarkerfi, — þá er gefinn hlutur, að slíkt orkuver mundi þjóna fleira fólki og hlutfallslega meiri framleiðslu, en þær tvær stöðvar, sem um ræðir í þessu frv. Hitt er svo aftur hárrétt, sem hv. þm. Str. hefur sagt hér, að þorpin á Skagaströnd eru framleiðslustaðir, sem ekki geta án raforku. verið. Það verður að skera úr því af sérfræðingum ríkisins, hvort heppilegra sé að ráðast í vatnsvirkjun eða hvort bæta eigi úr raforkuþörfinni með því að setja upp mótorstöðvar, úr því að þær, sem fyrir eru, eru ófullnægjandi. Ég mundi því segja í þessu máli, að niðurstaðan yrði sú, að ég vil með engu móti bregða fæti fyrir það, að ráðizt sé í þessar tvær virkjanir, a.m.k. ef raforkumálastjóri kynni að komast að þeirri niðurstöðu við áframhaldandi athugun, — því hann virðist ekki vera búinn að athuga þetta til fulls, — að það sé forsvaranlegt fjárhagslega. Og þá er sjálfsagður hlutur að afla lánsfjár til þessara virkjana, en ekki að segja, að það verði að bíða og að ekkert fé sé fyrir hendi til þessara hluta. Það verður ekki hægt að biða með Vestfjarðavirkjunina, sem kostar 30 millj. kr., þangað til fé er til í ríkissjóði til að koma henni áfram. Ríkissjóður yrði þá fyrst að bíta í hið súra epli, að sjá af sjávarafurðunum frá Vestfjörðum, ef hann neitaði þeim um raforku þangað til svo er fjárhagslega um hnútana búið. Það er gefinn hlutur, að þarna hefur trúnaðarmaður ríkisins komizt að þeirri niðurstöðu, að vatnsvirkjunarskilyrðin séu góð, og raforkuþörfin er hins vegar ótvíræð. Þarna verður, þó að fé sé ekki fyrir hendi í ríkissjóði, að ráðast í lántöku og þó að það verði að vera erlendis frá og dugi ekki innlent happdrættislán, því að það má með engu móti slá raforkumálunum á frest. Það er ekki auðveldara reikningsdæmi til en það, hvort raforkuver hefur skilyrði til þess að bera sig eða ekki. Við erum búin að fá reynsluna í þeim efnum og vitum, hvað þarf til þess. Það vita fjölmargir leikmenn, hvað þá rafveitusérfræðingar ríkisins, sem ekki lifa né hrærast í neinu fagi öðru, en þessu. Raforkusérfræðingar ríkisins eiga ekki að gefa út svona vangaveltur, eins og hér liggja fyrir, sem sýna, að þeir eru ekki búnir að gera dæmið upp, heldur eiga þeir að gefa út skýringar um það, hver sé niðurstaðan af þeim dæmum, sem búið er að reikna. Er þetta fyrirtæki líklegt til að geta staðið undir sér? Er raforkunotkunin svo mikill fyrir hendi, að fórna beri ábyrgð ríkisins til lántöku? Ég vil líta svo á, að niðurstöður af ummælum raforkumálastjóra séu þær, að hann mæli með því, að heimildarl. séu sett, og ég mun ekki bregða fæti fyrir þessa heimild. Hins vegar vil ég taka það skýrt fram, að ég tel, að við fulltrúar Vestfjarða samþ. ekki þar með, að hinni margendurskoðuðu og vel undirbúnu Vestfjarðavirkjun verði skotið aftur fyrir þessa þar með. Ég hef áður stungið upp á því, að þó að ekki sé hægt að ráðast í Vestfjarðavirkjunina í heild, alla í einu, þá sé hægt að taka það mál í fleiri áföngum. Það má vel fara þannig af stað að byggja upp háspennukerfi og tengja saman vissa staði fyrst. Með því móti má losna við 1- 2- 3- eða 4 dieselmótorstöðvar, sem settar hafa verið til bráðabirgða, og síðan má feta sig fram, með nokkurra ára bili, þar til Vestfjarðavirkjuninni yrði komið í framkvæmd. Það væri alveg eins hagkvæmt og að hafast ekkert að í þeim efnum. Ég held, að ef við hv. þm. Barð. færum þá leið að skella hér inn í þetta frv. till. um Vestfjarðavirkjunina, yrði það ekki tii neins annars, en að kistuleggja öll þessi mál í einu vetfangi. Ég sé ekki, að við ynnum neitt við það, því að þetta er stórmál fyrir þessi héruð, en kjördæmum okkar gerðum við með því mikinn óleik. Niðurstaðan yrði því negatív, og ég vil ekki eiga hlut að því.