09.05.1949
Efri deild: 101. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1671 í B-deild Alþingistíðinda. (2531)

173. mál, eignarnámsheimild á Efri-Skútu og Neðri-Skútu

Frsm. (Brynjólfur Bjarnason):

Þetta frv. fjallar um það að veita Siglufjarðarkaupstað heimild til eignarnáms á tveimur jörðum fyrir botni fjarðarins, Efri-Skútu og Neðri-Skútu. Þetta frv. er flutt samkv. ósk bæjarstjórnarinnar á Siglufirði, og er þetta einróma ósk bæjarstjórnarinnar, sem telur nauðsyn á að fá þessa heimild, vegna þess að þetta land þurfi að vera í eigu bæjarfélagsins sökum hafnarframkvæmda. Þetta land er nú svo að segja það síðasta, sem er ennþá í einkaeign á Siglufirði. Það er aðeins ein jörð eftir fyrir utan þessar tvær, sem frv. er um.

N. mælir einróma með því, að þetta frv. verði samþ., og þarf ég ekki að hafa um það fleiri orð.