31.01.1949
Neðri deild: 55. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1674 í B-deild Alþingistíðinda. (2560)

100. mál, jeppabifreiðar

Flm. (Jón Sigurðsson):

Herra forseti. Eins og kunnugt er, lá fyrir alllöngu síðan fyrir allshn. Sþ. þáltill. um innflutning jeppabifreiða. Við athugun þessarar till. virtist n. það engan veginn vera einhlítt að samþ. slíka till., af því að jafnframt yrði að gera ráðstafanir til þess, að sá innflutningur, sem um ræðir, kæmi að þeim notum, sem fyrir hv. flm. vakti.

Við nm. lítum svo á, að ekki væri hægt að tryggja það með þál. — ákvæðum einum saman. Það var líka svo, að þegar þessar jeppabifreiðar voru fluttar inn upphaflega, voru gerðar sérstakar ráðstafanir til þess, að þær kæmu að þeim notum, sem til var ætlazt. Með hliðsjón af þeirri reynslu, sem fengizt hafði við þá tilraun, taldi n. rétt að láta setja ákvæði um þetta í l., sem tryggðu enn betur, að svo yrði, en gert hefur verið hingað til. Og það, sem vakir þá sérstaklega fyrir n. með flutningi þessa máls hér, er að reyna að tryggja, að ávallt séu til fyrirliggjandi nægar birgðir af varahlutum til þessara bifreiða. Á því hefur verið, því miður, talsverður misbrestur. Í öðru lagi hefur n. viljað tryggja það, að jeppabifreiðarnar skiptist milli búnaðarfélaga um land allt, þannig, að einstök félög og búnaðarfélög, sem á annað borð geta notfært sér þessi farartæki, verði ekki afskipt. Í þriðja lagi vakir fyrir n., að þeir eigi fyrst og fremst að sitja fyrir kaupum á slíkum bifreiðum, sem hafa þeirra mest þörf, þeir, sem t.d. búa lengst frá alfaraleið og eiga þar af leiðandi örðugast með allar samgöngur. Í fjórða lagi er svo verið að tryggja, að bifreiðarnar haldist til frambúðar í sveitunum. Á þessu hefur orðið töluverður misbrestur, og það hefur sýnt sig, að þrátt fyrir þær hömlur, sem settar voru, notuðu einstaklingar sér það að selja bifreiðar sínar miklu hærra verði út úr sveitunum en þeir gáfu fyrir þær, til þess að hagnast á þeim. Slíkt viljum við flm. koma í veg fyrir og jafnframt koma í veg fyrir brask og okursölu á þessum samgöngutækjum sveitanna. — Þetta eru þau aðalatriði, sem fyrir okkur flm. vaka með flutningi þessa máls, og við teljum, að með þessu, sem hér hefur verið nefnt, ætti það að vera nokkurn veginn tryggt, að úthlutun bifreiðanna yrði réttlát og að þær héldust í sveitunum og yrðu að þeim notum, sem að er stefnt með þeim till., sem liggja fyrir Alþ., og þeim væntanlega innflutningi bifreiða, sem verða á nú á þessu ári.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta mál, en vildi leyfa mér að leggja til, að málið færi til landbn., þar sem það snertir sérstaklega sveitirnar.