05.04.1949
Neðri deild: 86. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1677 í B-deild Alþingistíðinda. (2565)

100. mál, jeppabifreiðar

Samgmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Ég ætlaði mér ekki að fara að blanda mér inn í þessar umr., en ef það er vilji manna, að þetta mál nái fram að ganga, er allt útlit fyrir, að enn ein n. verði skipuð. Ég hefði samt haldið, að hægt hefði verið að úthluta nokkrum hundruðum jeppabíla, án þess að skipa þyrfti nýja n. til þess. Á meðan viðskiptanefnd og fjárhagsráð starfa, hefði verið hægt að fela þessum stofnunum að sjá um þetta. Það mætti binda úthlutunina við fastar fyrir fram gefnar reglur, sem ekki mætti víkja frá, en ef Alþ. vill endilega bæta enn einni n. við, þá er ekki annað, en að gera það. Ég vildi aðeins láta þá skoðun mína í ljós, að ég tel, að það mætti leysa þennan vanda án þess að enn ein ný n. komi til skjalanna.