22.04.1949
Efri deild: 86. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1685 í B-deild Alþingistíðinda. (2590)

100. mál, jeppabifreiðar

Menntmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Ég vil aðeins benda á í sambandi við þetta frv., að það er gert ráð fyrir 3 millj. kr. í leyfisveitingum fyrir jeppabifreiðar. Ég veit ekki fyrir víst, hve margir jeppar fást fyrir það. Þeir eru ekki margir. Auk þess er ekki hægt að vita, hvenær gjaldeyrir verður til fyrir þessum innflutningi á árinu. Og eftirspurnin eftir þessum bifreiðum er óskapleg nú úr svo að segja hverjum hreppi á landinu, og spurt er eftir fleiri, en einum jeppa úr hverjum hreppi og sums staðar mörgum fleirum. Úthlutunin á þessum jeppabifreiðum verður þess vegna mikið vandamál. Og ef það ætti eftir að koma fyrir, að þessum tiltölulega fáu jeppum væri úthlutað af viðskiptanefnd eða einhverri undirnefnd frá ríkisstj. og sú n. sæti hér í Rvík, þá er augljóst, að það yrði algerlega óvinnandi verk nema af fullkomnu handahófi, og í kringum það yrði slíkt írafár og erfiðleikar, að það er eiginlega ómögulegt að hugsa til þess, að þannig ætti þetta að vera. Ég tel þess vegna skynsamlegast að fela búnaðarsamtökunum að úthluta þessum jeppum meðal bændastéttarinnar. Ef hægt væri að koma þessu fyrir svona lagað og að slíkt væri tryggt, þyrfti ekki um þetta atriði neina löggjöf, ef t.d. innflutningsyfirvöldin vildu fela þetta Búnaðarfélagi Íslands. En enn þá hafa ekki verið teknar ákvarðanir um þetta, og ég veit ekki, hvort slík ákvörðun hefði byr hjá innflutningsyfirvöldunum, og þess vegna tel ég, að þótt ekki þyrfti um þetta atriði löggjöf, ef þetta væri tryggt, að innflutningsyfirvöldin vildu hafa þetta svona, — að þetta liggi fyrir á þann veg, að það þyrfti að setja þessa löggjöf, til þess að fyrirbyggja þau ósköp, sem því yrði samfara, að einhver ríkisnefnd færi að úthluta þessum jeppum. Það væri helzt hægt að vonast eftir því, að þetta gæti gengið eftir einhverri allsherjar reglu með því að fela þetta þeim samtökum, sem gert er ráð fyrir í frv. Þess vegna mæli ég með því fyrir mitt leyti, að þetta verði gert að lögum.